144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

rekstur Hlíðarskóla.

224. mál
[19:00]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mínar til hv. þingmanns, fyrirspyrjanda, og annarra þingmanna sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Þetta mál hefur þróast svona og ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að það er heldur bagalegt að þessi staða sé uppi. Hún er þó ekki ný af nálinni eins og kom fram í máli mínu. Ég benti til dæmis á erindi sem sent var árið 2011 frá menntamálaráðuneytinu til fjárlaganefndar Alþingis þar sem reynt var að fá á hreint hvernig skyldi staðið að þessu.

Ég held að það fari ágætlega á því að þingmaðurinn haldi áfram að spyrjast fyrir um þetta og við komum okkur út úr því fyrirkomulagi að ákveða málsmeðferð við 3. umr. fjárlaga eins og verið hefur.

Þetta er angi af öðru stærra máli, virðulegi forseti, sem snýr einmitt að samvinnu og samstarfi menntamálayfirvalda annars vegar og velferðarmála- eða heilbrigðismálayfirvalda hins vegar hvað varðar úrræði fyrir þá sem hér er um að ræða og þann hóp sem þarf á því að halda að saman fari menntaúrræði og það sem snýr að heilbrigðismálum og slíkri þjónustu sem þessi hópur þarf á að halda og eins stuðningur við fjölskyldur þeirra. Þetta á bæði við á grunnskólastiginu en ekki síður á framhaldsskólastiginu þar sem heilmikið starf og mjög merkilegt, og sums staðar algjörlega frábært, vil ég segja, er unnið með nemendum sem hafa einhverjar þroskahamlanir sem hér er um að ræða.

Þá kemur enn og aftur að fjármögnuninni og hvernig við skiptum fjármagni á milli þessara málaflokka. Þetta er dæmi um einstaklinga sem skarast einhvern veginn til í kerfinu þannig að það getur leikið á því vafi hver fari með raunverulegt forræði málsins. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að leggja nú í nokkra vinnu við að eyða slíkum vafa og auka samstarfið milli þeirra ráðuneyta sem ég nefndi hér til að tryggja góða þjónustu við þennan viðkvæma hóp.