144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

framhaldsskólar.

228. mál
[19:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér brá dálítið við svar hæstv. ráðherra vegna þess að hann staðfesti það að í ráðuneytinu er verið að vinna einhver áform um sameiningu framhaldsskóla. Ég vil segja það fyrst, virðulegi forseti, að ég tel að það geti ekki átt sér stað innan veggja ráðuneytis hjá einhverjum kontóristum þar. Þetta er ákvörðun sem Alþingi verður að taka. Það þarf að koma með slík áform hér inn.

Virðulegi forseti. Það hvarflaði að mér þegar ég hlustaði á hæstv. ráðherra og þessi áform — mér finnst ljótt að segja það, en ég verð þó að gera það — hvort áætlun um fækkun nemenda og það sem verið er að skera niður sé undirbúningurinn að því að svelta framhaldsskólana til sameiningar. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að gegn því verður barist með miklum látum ef þau áform koma upp.

Ég held að það sem er fyrst og fremst að hér, virðulegi forseti, sé að ríkisstjórnin er að skera niður fjárveitingar í þessum málaflokki eins og svo mörgum öðrum í þeirri vegferð sinni að sýna hallalaus fjárlög. Þá skulum við bara hafa það á hreinu að það er hægt að ná saman hallalausum fjárlögum fyrir árið 2015 með því að ráðast á hinar ýmsu stofnanir landsins, gjörbreyta framhaldsmenntun og senda 25 ára og eldri þau skilaboð að þau hafi ekkert inn í skólana að gera, heldur eigi þau að fara eitthvert annað án þess að fjármagn fylgi með.

Virðulegi forseti. Ég trúi því ekki að áform séu uppi um að sá skóli sem ég hef gert hér að umtalsefni og mér er mjög kær í minni heimabyggð, sem var stofnaður á erfiðleikaárinu 2010, að sameina hann t.d. við Verkmenntaskólann eða Menntaskólann á Akureyri. Vafalaust er hægt í reiknilíkönum og excel-skjölum ráðuneytisins að finna einhverja hagræðingu í því, en ég segi: Þá er verið að velta þeim kostnaði eingöngu yfir á foreldra og nemendurna sjálfa sem þurfa að flytjast búferlum og fara á viðkomandi stað og fá sér gistingu og annað með þeim mikla (Forseti hringir.) tilkostnaði sem fylgir.

Virðulegi forseti. Ég hvet hæstv. ráðherra til að fara varlega í málinu og koma til Alþingis með þessi áform en ekki vinna þau inni í skrifstofuherbergjum ráðuneytisins.