144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins.

256. mál
[19:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra út í Ríkisútvarpið og ákvæði laga um Ríkisútvarpið, og fjölmiðlanefnd sem komið var á fót með lögum um fjölmiðla frá árinu 2011 sem eru um margt mjög merk lög, vegna þess að hér voru til umræðu í síðustu viku dómar Mannréttindadómstólsins yfir blaðamanni þar sem Mannréttindadómstóll breytti úrskurði íslenska ríkisins. Ég hef raunar grennslast eftir því og það liggur fyrir að þeir dómar voru allir miðaðir við fyrri löggjöf þannig að ný fjölmiðlalög hefðu valdið annars konar úrskurði hér heima á Íslandi hefðu þau verið komin í gildi þegar það mál stóð yfir.

Samkvæmt þeim fjölmiðlalögum var stofnuð fjölmiðlanefnd. Mörgum fannst nú of í lagt að hafa eitthvert sérstakt batterí til að fylgjast með, getum við sagt, íslenskum fjölmiðlamarkaði, til að mynda að tryggja að eignarhald fjölmiðla sé upplýst með gegnsæjum hætti, sem er þó krafa sem hefur verið uppi, til dæmis á þingi og í opinberri umræðu árum saman, að við fáum að vita hverjir eigi fjölmiðlana. Hingað til hefur enginn getað fylgst með því fyrr en fjölmiðlanefnd var komið á laggirnar.

Árið eftir voru svo samþykkt lög um Ríkisútvarpið og þá var rætt talsvert um almannaþjónustuhlutverkið. Það er skilgreint með nokkuð ítarlegum hætti í gildandi lögum, það sem lýtur að ýmsum þáttum þess almannaþjónustuhlutverks, kannski fyrst og fremst hinu lýðræðislega hlutverki og svo hinu menningarlega hlutverki. Ríkisútvarpið hefur verið talsvert til umræðu hér, ekki síst vegna ákvörðunar hæstv. ríkisstjórnar um að fylgja ekki þeim lögum sem samþykkt voru, þ.e. að tekjustofn Ríkisútvarpsins verði markaður, heldur að taka áfram hluta af útvarpsgjaldinu inn í ríkissjóð og það var gert með lagabreytingu. En önnur ákvæði laganna hafa fengið að halda sér.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um ákvæði sem er í 15. gr. þar sem kemur fram að fjölmiðlanefnd skuli árlega leggja sjálfstætt mat á það hvort Ríkisútvarpið hafi uppfyllt almannaþjónustuhlutverk sitt samkvæmt 3. gr. þar sem það er skilgreint. Matið skal afhent stjórn Ríkisútvarpsins og ráðherra eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að ársskýrsla Ríkisútvarpsins hefur verið birt.

Nú telst mér það til í ljósi þess að lögin eru frá vorinu 2013, að þá ætti það að liggja fyrir, að að minnsta kosti einu sinni ætti þetta að hafa gerst. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta hafi gengið eftir og hvert mat fjölmiðlanefndar hafi þá verið á því hvort almannaþjónustuhlutverkið hafi verið uppfyllt.