144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins.

256. mál
[19:24]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og hæstv. ráðherra svarið. Þetta mál tengist þeim fjárhagsvanda sem Ríkisútvarpið stendur frammi fyrir nú. Við höfum heyrt það úr ranni þingmanna stjórnarmeirihlutans að Ríkisútvarpið geti ekki verið allt fyrir alla, og að það eigi að gera grundvallarskipulagsbreytingar á því, segja aðrir. Þá þarf að útskýra fyrir okkur hvað af almannaþjónustuhlutverkinu eigi að fella niður, hvernig eigi þá að breyta því.

Vegna þessarar umræðu tel ég mikilvægt að hæstv. ráðherra upplýsi okkur um það í sínu seinna svari hvort til standi af hans hálfu að leggja til einhvers konar frekari afmörkun á almannaþjónustuhlutverkinu, sem væri þá til þess að réttlæta minni fjárframlög til stofnunarinnar. Ef ekki, þá geng ég út frá því að hann standi með okkur hinum í því að tryggja stofnuninni óbreytt útvarpsgjald, óskert til langrar framtíðar og að létta af henni eftirlaunaskuldbindingum.