144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins.

256. mál
[19:28]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni. Ég vil ítreka það að í máli mínu kom fram um fjárhagslega stöðu fjölmiðlanefndarinnar að nefndin taldi sig hvorki hafa sérfræðiþekkingu né fjármagn vegna hins fjárhagslega mats sem henni var gert að gera, það kom held ég nokkuð skýrt fram.

Hvað varðar almannaþjónustuhlutverkið og niðurbrot á því í ákveðna þætti má alveg ljóst vera, virðulegi forseti, að það hlýtur að breytast eftir því sem árin líða þó ekki væri nema vegna gríðarlegra tæknibreytinga sem eru að verða og um leið þá aðgengi almennings að til dæmis afþreyingarefni. Staðan sem uppi er nú í þeim efnum er allt önnur en hún var bara fyrir örfáum árum og hún mun líka breytast á næstu árum mjög mikið. Línuleg dagskrá eins og sú sem við eigum að venjast af minni kynslóð mun minnka, vægi hennar mun minnka jafnt og þétt. Fjölmiðlanotkun er að breytast mjög mikið, virðulegi forseti, og til allra þessara þátta þarf að líta, ekki bara núna heldur líka á næstu árum þegar við skilgreinum það hvert hlutverk Ríkisútvarpsins á að vera og hvernig það sinnir best þeirri skyldu sem við ætlum þeirri stofnun að sinna.

Þegar spurt er um almannaþjónustuhlutverkið þá er svar mitt þetta: Það getur ekki verið greypt í stein í eitt skipti fyrir öll og augljóslega munum við þurfa að endurskoða það með sennilega minna millibili og oftar og tíðar en okkur óraði kannski fyrir fyrir örfáum árum.

Hvað varðar fjármögnun Ríkisútvarpsins er alveg rétt að það er til umræðu nú. Í texta í fjárlagafrumvarpinu var sérstaklega tekið fram að fjármál þeirrar stofnunar væru til skoðunar og því væri eðlilegt að uppi væri umræða um þá stöðu.