144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

Háskóli Íslands og innritunargjöld.

318. mál
[19:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin, en þau fela í sér staðfestingu þess að haldið er áfram með niðurskurðarfyrirmæli til Háskóla Íslands sem mun bitna á getu skólans til að taka við nemendum að óbreyttu. Það var ákveðin stefnumörkun í því fólgin á undanförnum árum að auðvelda Háskóla Íslands að taka við fleiri nemendum. Það er verið að snúa til baka frá þeirri þróun.

Hækkun innritunargjaldanna rann að stærstu leyti í ríkissjóð en hæstv. ráðherra setur fram þær hundakúnstir að hún hafi ekki gert það og tengir það aðhaldskröfunni sem gerð var á skólann að öðru leyti. Ég ítreka að það er sama í hvaða vasa hæstv. ráðherra kýs að flokka einstaka peningastrauma, nettóniðurstaðan af breytingunni á síðasta ári var sú að skólinn naut ekki hækkunar innritunargjaldanna, þó svo að það hafi verið formlega gert með niðurskurði annars staðar.

Þess vegna stendur eftir að ríkisstjórnin heldur Háskóla Íslands í niðurskurðarkreppu, í kreppu minnkandi fjárframlaga í fyrra og aftur á þessu ári, á sama tíma og hún gumar sig af því að vera búin að ná jöfnuði í ríkisfjármálum og að hér séu orðnar slíkar öndvegisaðstæður í samfélaginu að ekki þurfi að hafa áhyggjur af nokkrum hlut. Það er verulegt áhyggjuefni vegna þess að markmið okkar hlýtur auðvitað að vera að tryggja að háskólinn geti sýnt sóknarhug, geti haldið áfram að (Forseti hringir.) taka á móti þeim fjölda nemenda sem þar knýr dyra því að við eigum öll mikið undir því.