144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

æskulýðsstarf.

335. mál
[19:42]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Páll Valur Björnsson) (Bf):

Hæstv. forseti. Eins og með öll önnur málefni eru málefnum æskulýðsfélaga landsins gefin fögur fyrirheit í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á samfélagslegt mikilvægi frjálsra félagasamtaka og sjálfboðastarfs og mun greiða götu slíkrar starfsemi. Æskilegt er að stjórnvöld viðurkenni í auknum mæli í verki mikilvægi samtaka á borð við hjálparsveitir, ungmennafélög, íþróttafélög, forvarna- og hjálparsamtök og önnur frjáls félagasamtök sem efla og bæta íslenskt samfélag.“

Þar stendur enn fremur:

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á mikilvægi íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsmála og samþættingu leiks og náms eftir því sem kostur er. Stuðla ber að því að sem flestir geti fundið eitthvað við sitt hæfi hvort sem um ræðir íþróttir, listnám, listsköpun eða félagsstarf. Slíkt starf þroskar einstaklinginn og hefur mikið forvarnargildi.“

Það þarf vart að undirstrika mikilvægi þess fyrir þingheimi að hlúa vel að ungu fólki á Íslandi, en vilja þarf að fylgja eftir með gjörðum. Það er erfitt að sjá í fjárlagafrumvarpinu að þar eigi að gera nokkuð til að bæta stöðu æskulýðs í landinu.

Á síðasta þingi var samþykkt þingsályktunartillaga um að kjörsókn á Íslandi yrði tekin sérstaklega saman eftir aldri. Sú skráning var framkvæmd í fyrsta sinn í sveitarstjórnarkosningunum í vor þar sem kjörsókn var sú allra minnsta í lýðveldissögunni. Þær tölur sem teknar voru saman sýna óyggjandi að kjörsókn ungs fólks á Íslandi er langtum minni en annarra aldurshópa. Rétt rúmlega 40% einstaklinga á aldrinum 18–25 ára mættu á kjörstað, svo dæmi sé tekið.

Mikilvægt er að láta fylgja hér að stuðningur við æskulýðsfélög á Íslandi er af skornum skammti og hefur verið skorið niður í æskulýðsmálum mörg ár í röð. Æskulýðssjóður fjármagnar aðeins einstaka verkefni og eru veittar um 10 milljónir í sjóðinn ár hvert. Þess má geta að Evrópa unga fólksins, Erasmus+, hefur veitt um 350 milljónir í verkefni til ungs fólks og félagasamtaka á hverju ári undanfarin ár. Sjóðir sem þessir eru góðra gjalda verðir en góð verkefni verða aldrei eins sterk og þegar félög hafa efni á því að vera með starfsmann eða starfsmenn. Þótt sjálfboðaliðar séu mikilvægur partur af félagsstarfi er nokkuð ljóst að vilji æskulýðsfélög sinna skyldum sínum við umbjóðendur sína og byggja upp öflugt starf verður að vera rekstrargrundvöllur fyrir starfseminni.

Hæstv. forseti. Því spyr ég hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra þessara þriggja spurninga:

1. Hvernig hyggst ráðherra fylgja eftir fyrirheitum stjórnarsáttmálans um aukna áherslu á æskulýðsstarf, t.d. í umræðu um fjárlög og framlög ríkisins til æskulýðsmála og æskulýðsfélaga?

2. Mun ráðherra beita sér fyrir því að framlög ríkisins til æskulýðsfélaga verði aukin með það að sjónarmiði að tryggja rekstrargrundvöll þeirra?

3. Hyggst ráðherra beita sér fyrir auknu jafnræði í stuðningi ríkisins við ólík æskulýðsfélög, sérstaklega með það í huga að tryggja rekstrargrundvöll smærri æskulýðsfélaga?