144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

æskulýðsstarf.

335. mál
[19:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Páll Valur Björnsson) (Bf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir þessi svör. Eins og ljóst má vera af svörum hans eru yfirvöld að vinna gott starf með æskulýðsfélögunum. Það er samt sem áður mikill uggur í þeim sem fara með þessi mál og þess vegna báðu þeir mig um að vinna þessa fyrirspurn fyrir sig.

Ef maður skoðar fjárveitingar í þennan málaflokk frá fjárlögum 2007 var árið 2007 198 milljónum varið til æskulýðsmála. Árið 2008, hrunárið, voru það 243 milljónir og eins 2009 voru það 227 milljónir. Síðan hefur þetta markvisst farið niður á við og er á næsta ári 175 milljónir. Ef við lítum til þess sem gerst hefur hér á landinu síðustu sjö árin, t.d. að verðlag hefur hækkað og laun líka og svo hefur krónan misst næstum helming af verðgildi sínu, er hægt að segja að eiginlega sé búið að skera þennan málaflokk niður á síðustu árum um helming. Féð dugir engan veginn til að halda þessu starfi á þeim stalli sem við viljum hafa það.

Þetta er sorgleg þróun. Það er afar mikilvægt að við styðjum við bakið á æskulýðsfélögum landsins. Í gegnum þau læra einstaklingar að vera þátttakendur í lýðræðissamfélagi, læra að móta sér skoðanir á málefnum og þannig fer fram mikil valdefling fyrir ungt fólk og aðkomu þess að samfélaginu. Í gegnum þátttöku í slíku starfi fer einnig fram mikilvæg vinna við að koma skoðunum ungs fólks á framfæri og í brennidepil. Með því að vinna ekki ötullega að því að viðhalda starfsemi þeirra með virkri styrkingu vinnum við gegn því að æska landsins verði virkur þátttakandi í því samfélagi sem við stöndum öll fyrir, leyfi ég mér að fullyrða. Enda kemur skýrt fram í stefnuyfirlýsingunni að æskulýðsstarf hvers konar þroski einstaklinginn og hafi mikið forvarnagildi.

Þess vegna verðum við að leggja enn meiri áherslu á þetta og forgangsraða kannski frekar í fjárlögum.