144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

flutningur heilbrigðisþjónustu til sveitarfélaga.

311. mál
[20:01]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga efni. Ég tek undir það sem hæstv. ráðherra endaði á að segja. Formaður sambandsins var á fundi með fjárlaganefnd þar sem einmitt þetta var rætt og ég held að ágætt sé fyrir ríkið að fara í þá vinnu að reka málaflokk eins og hann ætlar sveitarfélögunum að gera það.

En hæstv. ráðherrann veitti ekki svör við því hvort hann telur hægt að gera þetta ódýrara eða á sama hátt af hálfu ríkisins og gert hefur verið af hálfu Akureyrarbæjar.

Mig langar líka að spyrja: Ef Hornafjörður getur rekið sig að óbreyttu, af hverju er þetta tekið yfir að hluta? Ef ég skil þetta rétt er það flutt til ríkisins á Akureyri en ekki á Hornafirði, af hverju er það? Og varðandi ábyrgð á þjónustu, hefði ekki mátt gera (Forseti hringir.) það og framlengja þjónustusamninginn með auknu fé? (Forseti hringir.) Ekki nema hæstv. ráðherra telji hægt að gera það fyrir þetta fjármagn og þá er hann (Forseti hringir.) kannski akkúrat kominn að því sem hann sagði að (Forseti hringir.) formaður sambandsins hefði sagt: Að reka málaflokkinn innan þessa ramma.