144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

uppbygging hjúkrunarheimila.

312. mál
[20:10]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Vegna þessarar fyrirspurnar vil ég fyrst segja eftirfarandi: Varðandi andstöðu fjármálaráðherra við tiltekna fjármögnunarleið er eðlilegt að hann svari því og taki þá umræðu sjálfur. Ég hef nú grun um að það byggi einfaldlega á þeirri staðreynd að fjármögnun á Framkvæmdasjóði aldraðra eins og hún er í dag leyfi ekki frekari byggingaráform samkvæmt leiguleiðinni miðað við óbreytta fjármögnun. Í ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á árinu 2008 var lögð fram áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma á landinu og lagði þáverandi félagsmálaráðherra, hv. þm. Árni Páll Árnason, fram tillögu árið 2009 um uppbyggingu hjúkrunarheimila á ellefu stöðum um landið, sem samþykkt var 2009. Eftir henni hefur verið unnið og verður að segjast alveg eins og er að ekki hefur staðið á Framkvæmdasjóði aldraðra varðandi framkvæmd þeirra mála heldur fyrst og fremst á sveitarfélögunum af einhverjum ástæðum. Framkvæmdum samkvæmt þessari áætlun er lokið í fimm sveitarfélögum. Nú standa yfir framkvæmdir í fjórum sveitarfélögum en í tveimur sveitarfélögum eru framkvæmdir ekki hafnar, þ.e. í Hafnarfirði og Kópavogi.

Veruleikinn er hins vegar sá að tekjur Framkvæmdasjóðs aldraðra, sem séð hefur um þennan þátt og leggur venjulega fram 40% byggingarkostnaði við hjúkrunarrýmin, eru um 1.800 millj. kr. samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs. Gert er ráð fyrir því að greiðslur fyrir hjúkrunarrými verði áfram teknar úr framkvæmdasjóði og eru þær núna 625 millj. kr. en voru þegar mest var rúmur milljarður, þannig að þær hafa lækkað. Nú er verið að reyna að trappa þetta niður til þess að búa til meira svigrúm fyrir framkvæmdasjóðinn.

Það þarf að vera meira því að ef við horfum á málið eins og það er á framkvæmdasjóðurinn að ljúka leiguleiðinni þegar hún er öll komin til framkvæmda að óbreyttu umfangi hans, en þegar öll þessi ellefu heimili eru komin í rekstur á sjóðurinn að öllu óbreyttu ekki eftir nema 100 millj. kr. til annarra verkefna. Það segir mér að þetta er bara búið í þeirri mynd sem það er. Það þarf því að hækka nefskattinn sem greiddur er í framkvæmdasjóðinn eða að létta greiðslunni sem framkvæmdasjóðurinn greiðir fyrir rekstur hjúkrunarrýma af honum. Það gæti gefið okkur aðeins meira svigrúm til þess að vinna betur á þeim biðlistum sem eru eftir þessari þjónustu. Ef ég man rétt eru um 260 manns á biðlista eftir hjúkrunarrými að meðaltali á degi hverjum. Verkefnin eru því ærin en fjármunirnir eru líka töluverðir sem þarf til að byggja stofnanarými fyrir alla þá sem á biðlistunum eru og eins er rekstrarkostnaðurinn miklu þyngri og erfiðari.

Þá er eðlilegt að horfa og spyrja eins og hér er gert: Hvaða sýn hefur ráðherrann á þetta mál? Ég hef lýst því varðandi fjármögnunina á framkvæmdasjóðnum. Ég tel eðlilegt að fjármagna uppbyggingu hjúkrunarrýma og úrræði þar í gegn. Til þess eru tvær leiðir að mínu viti. Það reynir bara á vilja þings til þeirra.

Hinn þátturinn lýtur að því hvernig við eigum að mæta þeirri biðlistaþörf sem er að byggjast upp. Það er flóknara mál. Ég tel að miðað við allar aldursspár séum við því miður á eftir og seinagangurinn í ákvarðanatöku eða úrvinnslu sveitarfélaganna eftir leiguleiðinni hefur tafið okkur á þeirri vegferð. Svigrúmið sem við höfum til þess að byggja upp stofnanaþjónustu á þessu sviði hefur takmarkast af þeim fjármunum sem veittir eru í sjóðinn. Ég tel eðlilegt að ljúka þeirri uppbyggingu sem þarna er fyrirhuguð, en jafnhliða að gera plön um að mæta þörfinni sem er að minni hyggju brýnust hér á höfuðborgarsvæðinu, á svæðinu í kringum Selfoss og síðan á Húsavík. Það eru þrjú þyngstu (Forseti hringir.) svæðin sem bera í rauninni uppi (Forseti hringir.) hinn raunverulega biðlista.