144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

uppbygging hjúkrunarheimila.

312. mál
[20:16]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra svaraði hluta af því sem ég var að velta fyrir mér, en ég bíð nú líka spennt því að ég er hér með skriflega fyrirspurn sem ég átti von á að fá svar við í dag eða á morgun í 11 liðum einmitt um öldrunarmál og því er snýr að búsetuúrræðum og stefnu stjórnvalda í því efni. Ég vona að það sé rétt að þetta sé að detta inn í hús því að ég held að það sé mikilvæg viðbót við það sem við erum að ræða. Stefnan fram undan skiptir auðvitað máli, burt séð frá því sem hér hefur verið rakið og er framfylgt nú þegar.

Hæstv. ráðherra talaði um að staðið hefði á sveitarfélögum, a.m.k. á tveimur stöðum. Getur verið að það sé hreinlega vegna stöðu þeirra eftir hrun? Mér heyrðist hann nefna sveitarfélög sem hafa farið illa út úr því og hafa hreinlega ekki getað tekið þátt í þessu. Eins og hæstv. ráðherra veit þá hlustuðum við í kjördæmaviku á sveitarstjórnarmenn tala alls staðar um þörf fyrir fleiri pláss.

Hér (Forseti hringir.) var talað um alla vega tvær leiðir og ákvörðun þingsins til þess (Forseti hringir.) að velja leiðir. Hyggst hæstv. ráðherrann leggja þær til og hvora þeirra þá helst?