144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

uppbygging hjúkrunarheimila.

312. mál
[20:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Hann skautaði nú dálítið fram hjá því að útskýra nákvæmlega fyrir mér hvernig hann sæi þetta fyrir sér að sinni hyggju. Ég vil hins vegar einfalda honum það verkefni með því að lýsa því skýrt yfir að við í Samfylkingunni munum styðja að fundnar verði leiðir til þess að gera Framkvæmdasjóði aldraðra kleift að halda áfram uppbyggingaráætlun í samræmi við þá uppbyggingaráætlun sem ég fékk samþykkta 2009 og enn er unnið eftir eins og hæstv. ráðherra rakti.

Það er mjög mikilvægt að við höldum áfram í ljósi aldurssamsetningar þjóðarinnar, eins og hæstv. ráðherra benti réttilega á, og vaxandi þarfar. Við verðum líka að muna að hjúkrunarheimili eiga ekki að verða kaldranalegar sjúkrastofnanir fyrir allra síðustu vikur ævinnar heldur heimili fólks þar sem það kemur inn og tekst á við það verkefni sem öldrun er, hún er ekki sjúkdómur heldur er það eðlilegur þáttur í lífi okkar allra að við eigum eftir að eldast ef guð gefur. Ég held að það skipti mjög miklu máli að halda þessu verkefni áfram. Við munum styðja það að framkvæmdasjóðurinn fái til þess svigrúm. Það er eðlilegt að hugsa líka um það hvort aðstæður varðandi öldrun þjóðarinnar kalli á hækkun á framlaginu, breytingar á framlaginu með einhverjum hætti, tengja það með einhverjum hætti tekjuskattinum eða öðru slíku. Við erum til viðræðu um allar slíkar útfærslur.