144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

uppbygging hjúkrunarheimila.

312. mál
[20:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst svara því sem hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttur nefndi um fyrirspurnina. Henni er svarað. Við stöndum þá fresti sem okkur eru gefnir fyrir fyrirspurnir. Það heyrir til algerra undantekninga ef erindum þingsins er ekki svarað á réttum tíma frá mínu ráðuneyti.

Ég held að skýringin á drættinum á leiguleiðinni sé ekkert endilega sú að þetta hafi verið þau sveitarfélög sem stóðu hvað verst. Eitthvað í ferli málsins hefur valdið því að þetta gekk hægar en menn ætluðu, við því er í sjálfu sér ekkert að gera.

Ég hef undirstrikað það að ég vil ljúka uppbyggingunni samkvæmt leiguleiðinni. Það er eftir að starta framkvæmdunum í Hafnarfirði, en þar voru menn lengi að rífast um hvar þetta ætti að vera og svo framvegis. Kópavogur hefur einhvern veginn ekki haft sig af stað. Ég kann ekki á því almennilegar skýringar. Ég hef rætt við forsvarsmenn beggja þessara félaga og reynt að ýta við þeim þannig að þeir komist af stað.

Á meðan höfum við líka verið að bæta við fjármunum, og það má ekki gleyma því, í þennan málaflokk. Vífilsstaðir til dæmis, þar var opnun á 42 nýjum hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu. 200 milljónir í ný hjúkrunarrými út um landsbyggðina í hinum dreifðari byggðum. Þannig hef ég reynt að mæta þessu með samþykki og stuðningi Alþingis og þannig held ég að við verðum að vinna áfram meðan við erum að móta okkur skýrari línur um það hvernig við viljum fara að til lengri tíma við fjármögnun á þessum rýmum. Sú lausn liggur ekki á borðinu.

Ég fagna yfirlýsingu hv. þm. Árna Páls Árnasonar um samstarf við Samfylkinguna um að leita annarra leiða. Þetta er og verður okkar sameiginlega verkefni þannig að ég er mjög ánægður að heyra það.