144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

dráttur á svari við fyrirspurn.

[13:38]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það getur alltaf gerst að það dragist að svara fyrirspurnum og þá leitar framkvæmdarvaldið eftir því að fá frest þar um. En fyrirspurn Oddnýjar G. Harðardóttur er ekki um hvert annað mál. Hún lýtur að grundvallarupplýsingum um meginbreytinguna í sköttum í fjárlagafrumvarpinu sjálfu, þingmáli nr. 1, og maður skyldi ætla að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi ekki farið fram með tillögur um skattbreytingar gagnvart fólkinu í landinu öðruvísi en að vera með á borðinu þær upplýsingar sem spurt er um.

Ég vona svo sannarlega að hann hafi haft þær á borðinu en þá hlýtur maður að spyrja: Vill hæstv. fjármálaráðherra ekki að þessar upplýsingar komi fram? Það getur auðvitað ekki gengið að ekki sé upplýst um fyrirspurn sem snýr að meginbreytingunni í skattlagningu í fjárlagafrumvarpinu — á einum og hálfum mánuði. Eru ekki til upplýsingar um matarskattinn í fjármálaráðuneytinu? Voru teknar ákvarðanir um milljarðaálögur án þess að þær (Forseti hringir.) upplýsingar væru til? Og er það ekki grundvallaratriði (Forseti hringir.) að hann kappkosti að útvega þær upplýsingar eins fljótt og verða má? Er einn og hálfur mánuður ekki algjörlega (Forseti hringir.) óhæfilegur tími (Forseti hringir.) í þessu efni?