144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri og gera hér að umtalsefni þau tíðindi sem urðu hljóðbær og sýnileg á dögunum að tveir aðilar hafa nú spyrt sig saman og kynnt drög að áætlun um mat á umhverfisáhrifum fyrir annars vegar háspennulínu og hins vegar uppbyggðan veg þvert yfir miðhálendi Íslands, nánar tekið yfir kvosina milli Þjórsárvera og Hofsjökuls í vestri og Vatnajökulsþjóðgarðs að meðtöldum Vatnajökli og Tungnafellsjökli og Vonarskarði í austri. Þetta eru Vegagerðin og Landsnet.

Hér er stórmál á ferð, herra forseti, sem mér finnst að Alþingi verði að láta til sín taka. Þetta er gert í skjóli gamals svæðisskipulags fyrir miðhálendið sem nú sætir einmitt endurskoðun og á að falla úr gildi innan skamms. Það á að leysa af hólmi með nýrri landsskipulagsstefnu sem taka á til áranna 2015–2026.

Ég tel að það sé ótækt að þessir aðilar, opinberir og hálfopinberir aðilar, fari af stað með þetta mál í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru varðandi skipulagsþáttinn, en það lagaumhverfi er að taka gagngerum breytingum, og einnig vegna þess að næsta mál á dagskrá þessa fundar á eftir kosningu, herra forseti, er breytt lagaumhverfi hvað varðar lagningu raflína, hvað varðar álitamál sem tengjast flutningum um loftlínur eða jarðstrengi. Mér finnst því að nefndir þingsins og sú sem þetta varðar auðvitað mest, umhverfis- og skipulagsnefnd, hljóti að kalla þessa aðila til sín og fara fram á það við þá að þeir bíði með þessi áform, a.m.k. þangað til lagaumhverfið að þessu leyti er komið til frambúðar eins og það á að vera. Þegar hvort tveggja í senn er uppi, að skipulagið sætir endurskoðun og lagaumgjörðin sjálf í raforkulögunum á að taka breytingum hér í vetur, ef svo ber undir, þá finnst mér ótækt að þessir aðilar fari svona fram.

Það er ekki einkamál Landsnets eða Landsvirkjunar (Forseti hringir.) hvernig farið er með miðhálendi Íslands.