144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Umræðan um Reykjanesbæ og Suðurnes síðustu daga hefur verið þungbær og umfjöllun í fjölmiðlum oft og tíðum verið óvægin og sært fólk á svæðinu. Það eru mörg tækifæri á Suðurnesjum. Það er gott fólk sem býr á Suðurnesjum, en við höfum ekki haft afl til að klára þau tækifæri sem þar eru og koma þeim í framkvæmd. Ég held að þeir sem fjalla um þessi mál núna ættu að temja sér það orðalag sem bæjarstjórinn í Reykjanesbæ, Kjartan Már Kjartansson, hefur um þessa stöðu, en hann vill horfa til framtíðar og leysa málin. Það er eina lausnin. Hún er í framtíðinni, þótt það sé alveg rétt að halda til haga því sem betur mátti fara.

Ég velti líka fyrir mér hvernig Alþingi hefur staðið sig gagnvart Suðurnesjamönnum í þeirri orrahríð sem þeir hafa verið í undanfarin ár. Álver í Helguvík og rafmagn í álverið — það gerðist ekkert í þeim málum á síðasta kjörtímabili og það er ekkert að gerast í þeim enn þá. Nákvæmlega ekki neitt. (Gripið fram í.) Þar hefur fólkið beðið eftir hundruðum starfa, við betur launuð störf.

Á Suðurnesjum eru fæst hjúkrunarheimili miðað við þúsund íbúa. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fær lægsta framlag á hvern íbúa á landinu. Það er reyndar ekki alveg hægt að bera saman krónu og krónu, en þetta er lægsta framlagið í landinu.

Keilir, framhaldsskólinn okkar, fær 500 þús. kr. á nemanda þegar aðrir framhaldsskólar fá 1 milljón. Hvers konar sanngirni er þetta sem við bjóðum Suðurnesjamönnum? Á þessu svæði hefur mesta atvinnuleysi verið undanfarin ár, alveg frá því ég flutti þangað fyrir tíu árum síðan, en svæðið fær 1.370 kr. á hvern íbúa í atvinnuþróun þegar svæði eins og Vestfirðir þar sem ekkert atvinnuleysi er fær 17 þús. kr. á íbúa. Er þetta réttlætið sem þingið ætlar að bjóða fólkinu á Suðurnesjum upp á? Ég spyr.