144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

störf þingsins.

[14:13]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vildi nota tækifærið hér undir liðnum um störf þingsins og vekja athygli á viðbótarumsögn BSRB um frumvarp ríkisstjórnarinnar um hækkun á matarskatti. Það er ákaflega merkilegt innlegg í umræðuna um þær ótrúlegu fyrirætlanir Sjálfstæðisflokksins, sem Framsóknarflokkurinn virðist ætla að beygja sig undir, að hækka matarverð almennt í landinu um 5 prósentustig.

Hér hefur því verið haldið fram að alls kyns mótvægisaðgerðir kæmu á móti, afnám vörugjalda mundi koma á móti o.s.frv. En almenningur hefur auðvitað reynslu af því að hækkanir skila sér en lækkanir illa. Og hvað hefur nú BSRB gert? BSRB hefur dregið fram mjög ítarlega rannsókn Rannsóknaseturs verslunarinnar um áhrif gengisbreytinga á vöruverð. Gengisbreytingar eru eðlislíkar skattbreytingum. Gengið hækkar og lækkar og í rannsókninni frá 2011 er spurt: Hvernig skilar það sér í vöruverði?

Niðurstöðurnar eru mjög skýrar. Hækkanir skila sér strax og að fullu. En þegar gengi krónunnar styrkist skilar það sér bara að 2/3 hlutum í matvöruverði og þegar kemur að raftækjum eða byggingarvörum eða öðrum slíkum vöruflokkum skilar það sér takmarkað, hverfandi eða ekki. Þetta eru rannsóknarniðurstöður um það sem við öll vissum fyrir, að hækkanirnar skila sér út í verðlagið en lækkanirnar ekki. Þess vegna er svo alvarlegt að ríkisstjórnin, við kröpp kjör tugþúsunda heimila í landinu, ætli að hækka matarverð um 5 prósentustig og treysta á að lækkanirnar skili sér, sem reynslan og rannsóknir sýna að gera ekki.