144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

raforkulög.

305. mál
[14:27]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér fagnaðarefni að þessi tvö mál sem fylgjast hér að séu komin til umfjöllunar á þinginu. Þau eru afar mikilvæg og ég er sammála hæstv. ráðherra um að þessi mál hafa ekki verið í nægjanlega góðum farvegi hjá okkur eða umbúnaður um þau nægilega vandaður enda þekkja menn deilur og vandræðagang sem tengst hefur ákvarðanatöku í þessum efnum á umliðnum missirum og árum. Það er þar af leiðandi brýnt að Alþingi takist á við það að setja nýjan lagaramma um meðferð þessara mikilvægu mála hvernig raforkukerfið er byggt upp, hvernig áætlanir eru lagðar um uppbyggingu þess til framtíðar og síðast en ekki síst hvernig farið er með álitamál og ágreining sem nokkurn veginn ljóst er að er líklegur til að koma upp í sambandi við þessi mál.

Segja má að aðalatriði frumvarpsins sé kerfisáætlunin og staða hennar gagnvart sveitarfélögunum og öðrum aðilum sem hér eiga hagsmuna að gæta, þar á meðal umhverfisverndarsamtök, og svo samspil hennar við þingsályktunartillöguna þar sem ætlunin er að leggja viðmið og marka stefnu stjórnvalda um álitamál sem tengjast spurningum um lagningu raflína í jörð eða í lofti.

Samráðið sem hér er innbyggt í undirbúningsferli kerfisáætlunar er að sjálfsögðu mjög gott og mikilvægt. Mér sýnist ágætlega um það búið og sú skylda er lögð á herðar flutningsaðilans og síðan Orkustofnunar í framhaldinu að hlusta á öll sjónarmið sem fram koma og er það gott og vel. En veikleiki málsins verður áfram að mínu mati sá að ekki er sérstaklega tekið á farvegi fyrir það hvernig úrskurða skuli um ágreiningsmál eða setja þau niður því að þrátt fyrir fögur fyrirheit um víðtækt samráð eru mismunandi sjónarmið dæmd til að vera uppi í þessum efnum og stundum er óbrúanleg gjá milli viðhorfa, t.d. svæðisbundið í sveitarfélagi eða af hálfu umhverfisverndarsamtaka annars vegar og hagsmuna orkuflutningsaðilans og orkukaupandans hins vegar. Sá ágreiningur verður til staðar þó svo að menn hafi fellt hann inn í kerfisáætlun að höfðu samráði sem kannski hefur ekki leitt til sameiginlegrar niðurstöðu. Þá er það kerfisáætlunin sem ræður og fær geysilega sterka stöðu.

Ég held að það starf sem verið hefur í gangi undanfarin missiri hafi fært menn mikið nær því að finna farveg fyrir umbúnaðinn um þessi mál, undirbúning undir framkvæmdir, vandaða áætlunargerð og samráð við aðila, en það vantar að mínu mati enn þá inn í málið síðustu slaufuna sem er hvernig ágreiningur er útkljáður sem ekki hefur tekist að brúa í samningsferlinu. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi meira til en hér er lagt upp með, einhvers konar gerðardóm eða gerð eða óháðan úrskurðaraðila sem hægt er að skjóta til a.m.k. stærri málum af þessu tagi og eftir atvikum bera þá niðurstöðu hans undir dómstóla ef menn una ekki gerðinni. Ég sé í raun og veru ekki aðra leið en að vísa því í einhvern slíkan farveg ef samráðsferlið nægir ekki til að brúa bilið og leysa ágreininginn.

Ég held að menn verði að lesa mjög vandlega — og ég geri ráð fyrir því að hér á þingi sé talsvert af fólki með reynslu af sveitarstjórnarmálum — það sem segir um stöðu kerfisáætlunar gagnvart skipulagi sveitarfélaga í c-lið 2. gr. frumvarpsins, en þar er ansi sterkt að orði kveðið. Þar segir einfaldlega, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórnum ber við næstu endurskoðun aðalskipulags, og eigi síðar en innan fjögurra ára frá samþykkt kerfisáætlunar, að samræma skipulagsáætlanir vegna verkefna í staðfestri tíu ára kerfisáætlun. Sveitarstjórnum ber enn fremur að tryggja að skipulagsmál hindri ekki framgang þeirra verkefna sem eru í staðfestri þriggja ára framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórn er óheimilt að víkja frá tillögu flutningsfyrirtækisins ef það leiðir til þess að flutningsfyrirtækið nær ekki að uppfylla skyldur sínar samkvæmt gildandi kerfisáætlun hverju sinni.“

Svo segir í lokamálsgrein c-liðar:

„Um málsmeðferð samkvæmt grein þessari fer að öðru leyti samkvæmt skipulagslögum eftir því sem við á,“ en þó, eftir því sem við á „að teknu tilliti til stefnu stjórnvalda um lagningu raflína og markmiða kerfisáætlunar.“

Á mannamáli þýðir þetta að skipulagslögum er vikið til hliðar alls staðar þar sem á þau reynir og kerfisáætlunin ræður. Gott og vel. Hafi samráðið leitt til þess að menn hafa náð sæmilega sameiginlegri niðurstöðu þá skilur maður út af fyrir sig þörfina fyrir að skapa kerfisáætluninni stöðu, en hvað ætla menn að gera þegar það tekst ekki, þegar nokkur sveitarfélög saman eru algerlega ósátt við tillöguna sem Orkustofnun samþykkir á grundvelli tillagna frá flutningsfyrirtækinu kerfisáætlun? Hvað ætla menn þá að gera með þann ágreining ef búið er að taka skipulagsvaldið algerlega í burtu frá sveitarfélögunum í því tilviki þannig að sveitarfélagið hefur ekki stöðu gagnvart þeim? Á það þá einhverja leið til að bera ágreining undir einhvern aðila? Nei, því miður held ég að það sé ekki eins og um þetta er búið hér. Hér eru því mjög vandasöm mál á ferð sem þarf að huga mjög vel að.

Varðandi samspilið yfir í þingsályktunartillöguna er að mörgu leyti reynt að búa til ramma um þetta en það er líka mjög margt vandasamt og matskennt í því. Eru menn t.d. sannfærðir um að sú viðmiðun sé rétt við að jarðstrengur megi aldrei kosta meira en 1,5 sinnum kostnað við loftlínu, þó að í rökstuddum undantekningartilvikum sé heimilt að víkja frá því? Er það rétta viðmiðunin? Hvaða verðmiða setjum við á það ef umhverfisaðstæður kalla eindregið á það að fara með raflínu í jörð en það kostar tvisvar sinnum meira, á þá ekki að vera hægt að víkja því til hliðar? Jú, kannski væri hægt að túlka það þannig að þegar um þjóðgarða og friðlýst svæði væri að ræða væri það hugsanlegt en ekki endilega í öðrum tilvikum.

Hvernig reiknar maður kostnaðinn 1,5 sinnum meira? Tekur maður viðkomandi bút og segir: Á þessum 5 kílómetra kafla byggðalínunnar frá Blönduvirkjun og austur í Fljótsdal má kostnaðurinn ekki vera nema 1,5 sinnum meiri? Eða segir maður: Hér er um að ræða mörg hundruð kílómetra mikilvæga flutningsleið raforku sem kostar svo og svo marga milljarða og þó að kostnaðurinn á stuttum kafla hennar sunnan við flugvöllinn á Akureyri sé þrefaldur er það ásættanlegt vegna þess að það er viðbótarkostnaður á stuttum legg sem er hluti af stóru flutningskerfi? Öll þessi álitamál verða áfram uppi en við þurfum að minnsta kosti að vanda okkur mjög og róa fyrir margar víkur áður en þetta verður svo helt að það taki til þessara hluta. En ég endurtek það sem ég sagði: Ég fagna því að þessi vinna er í gangi og vonast til að Alþingi skoði málið mjög rækilega.

Hæstv. ráðherra lagði til að vísa málinu til atvinnuveganefndar og kannski er ekki sterk staða til að gera athugasemdir við það í þessu tilviki, en þó, hér eru ekki síður undir umhverfismál og skipulagsmál og þau tilheyra annarri nefnd Alþingis. Ég óska því eindregið eftir því að sú nefnd fái sterka aðkomu að þessu máli og jafnvel að nefndirnar vinni málið mikið saman.

Ég er mikill áhugamaður um að við reynum að finna hér aðferðafræði sem er mjög vel til þess fallin að setja niður deilur í þessum efnum þó að auðvitað verði aldrei hægt að lofa slíku fyrir fram að nein mannanna verk verði svo fullkomin í lagasmíð og reglusetningu að við getum eytt út allri hættu á ágreiningi um þessi viðkvæmu og vandasömu mál, en þá þurfum við líka að vanda okkur við það. Það væri engum greiði gerður með því að þjösna hér í gegn einhverju sem er að einhverju leyti í andstöðu við sveitarfélögin, umhverfisverndarsamtök eða þess vegna að þar væri nokkuð sem raforkufyrirtækin, flutningsfyrirtækin teldu sig ekki geta lifað með. Við verðum auðvitað að horfast í augu við ríka hagsmuni á báða bóga og alla enda og kanta í þessu máli, það er nokkuð ljóst.

Ég nefndi hér í liðnum um störf þingsins þau tíðindi sem urðu á dögunum að Landsnet og Vegagerðin hafi allt í einu sinni spyrt sig saman og kynni nú drög að matsáætlunum um mat á umhverfisáhrifum fyrir háspennulínu og upp í veg yfir miðhálendi Íslands. Ég held að umræða um það mál eitt og sér ætti að duga til að leiða fram hversu ótímabært það er að þetta stóra mál fari af stað einmitt núna þegar við erum að byrja að ræða lagarammann á Alþingi um t.d. hvenær línur eru lagðar í jörð og hvenær þær eru í lofti, og eins þegar skipulag miðhálendisins sætir endurskoðun. Því ætti að ljúka fyrir lok þessa árs því að nýtt landsskipulag sem tekur sérstaklega til miðhálendisins og á að leysa svæðisskipulag miðhálendisins af hólmi ætti í raun að ganga í gildi í byrjun næsta árs. Þess vegna væri það eitt fyrsta og brýnasta verk þingsins að fara fram á það við þessa aðila að þeir afturkölluðu þessa kynningu og biðu með það mál þangað til niðurstaða er fengin í lagasetninguna hér að þessu leyti og þangað til niðurstaða er komin í vinnuna að nýrri landsskipulagsstefnu.

Ég beini því líka til þingnefndarinnar og viðkomandi þingnefnda að þetta verði gert. Það verður ekkert nema ófriður af því ef landsnet leggur af stað núna með matsáætlun á grundvelli eldri og að ég tel úreltra ákvæða og úrelts miðhálendisskipulags rétt áður en það á að leysast af hólmi af öðru og nýju lagaumhverfi og skipulagi. Og það er ekkert smámál að ræða skóg af háspennumöstrum þvert yfir miðhálendi Íslands, það sem ég mundi kalla hjartað í miðhálendi Íslands. Það er lægðin milli Þjórsárvera og Hofsjökuls í vestri og Vatnajökuls og Tungnafellsjökuls og Vatnajökulsþjóðgarðs að meðtöldu Vonarskarði í austri. Sjá menn það fyrir sér að vera þar á ferð, ég tala nú ekki um gangandi, og hafa fyrir augunum himinhá háspennumöstur hvert sem litið er? Jú, Landsnet opnar á þann möguleika að einhver pínulítill bútur á alla viðkvæmasta svæðinu fari í jörð, en erum við þá viss um að viðmiðanirnar fyrir það séu lagðar rétt með þessum hætti? Hvers virði er miðhálendi Íslands? Hvers virði eru stærstu ósnortnu víðerni í Evrópu sem við höfum með höndum að passa upp á? Eru þau ekki ansi verðmæt, þó að auðvitað eigi aldrei að leggja efnislegan mælikvarða á slíka hluti? Það er ekki hægt að mæla það í krónum og aurum beinlínis eins og minn gamli nestor, Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur, sagði einu sinni að hægt væri að reikna út verðgildi kílóvattstunda en ekki verðgildi unaðsstunda. Það væri vandinn við það að meta verðgildi fossa. Það væru engar krónur og aurar hengdir aftan í eininguna unaðsstund. Ég held að það sé mikið í húfi að við vöndum okkur vel í þessum efnum. Ef vel tekst til gætum við að vissu leyti verið að leggja hér niður aðferðafræði sem hefði hliðstæðu við rammaáætlun. Ef ekki tekst nógu vel til þá munu deilurnar geysa áfram.

Það þarf líka að leggjast geysilega vel yfir forsendur áætlunargerðarinnar: Hverjar eru þarfirnar sem orkufyrirtækið eða flutningsfyrirtækið leggur til grundvallar kröfum sínum um að fá að leggja svo og svo miklar háspennulínur jafnvel þvers og kruss um landið? Í hverra þágu er það? Núgildandi almenns raforkumarkaðar á Íslandi? Nei, það þarf miklu minna til. Það þarf engar 220 kílóvatta línur þvert yfir landið eða hringinn í kringum það til að mæta þeim þörfum, en það þarf að bæta úr ástandinu, það er alveg rétt. Og á vissum svæðum er hvorki afhendingargetan né afhendingaröryggið nógu mikið. Þess vegna geri ég ekki lítið úr þeirri þörf sem þar er til staðar, en erum við viss um að við getum keyrt hráar forsendur orkuiðnaðarins sem auðvitað vill fá að virkja sem mest og flytja sem mest af rafmagni þegar við erum að leggja niður aðferðafræðina í þessum efnum? Það er ég ekki viss um þannig að það er ekki nóg að fara bara ofan í rammann sem hér er settur upp heldur þarf líka að kafa djúpt ofan í forsendurnar sem menn gefa sér fyrir þörfinni á svo og svo mikilli fjárfestingu og svo og svo mikilli uppbyggingu og einhver borgar hana, svo mikið er víst.

Herra forseti. Ég hefði viljað segja margt fleira um þetta mál og kem kannski einhverju að aftur um þingsályktunartillöguna sem væntanlega verður tekin hér fyrir næst á eftir.