144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

raforkulög.

305. mál
[14:47]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að við unnum þetta í nánu samráði og tókum beinlínis út fyrra orðalag, sem var í frumvarpsdrögunum, varðandi c-lið 9. greinar sem olli áhyggjum og athugasemdir komu um. Við tókum það úr frumvarpinu eftir þær athugasemdir.

Varðandi þau atriði önnur sem hv. þingmaður nefnir um úrskurðaraðila þá hvet ég nefndina til að fara vel yfir það. Einnig vildi ég nefna, vegna orða hv. þingmanns um að þetta gæti átt heima í fleiri nefndum, að ég tel sjálfsagt að hv. atvinnuveganefnd sendi málið til umsagnar, eins og alsiða er hér í þinginu, til umhverfis- og skipulagsnefndar. Umhverfis- og skipulagsnefnd fær þannig tækifæri til að hafa áhrif á málið.

Bara til að ítreka meginmarkmið frumvarpsins: Ekki er ætlunin að þjösna einu eða neinu í gegn, svo að ég noti orðalag hv. þingmanns, heldur er það einlægur vilji okkar sem erum talsmenn þessa frumvarps að reyna að koma þessum málum í það horf að við getum samræmt þessi sjónarmið.

Það þarf að byggja hér upp í flutningskerfinu. Það þarf að styrkja raforkukerfið í landinu. Það er ómögulegt að hafa ástandið eins og það hefur verið um áratugabil að hver einasta framkvæmd skapi deilur og illindi. Við þurfum að geta komið okkur saman um leikreglurnar til þess að geta tekið sem flest sjónarmið inn í myndina.