144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

raforkulög.

305. mál
[14:49]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég held að um það sé að sjálfsögðu samstaða að reyna að búa þessu umgjörð á þann veg að hægt sé að leiða til lykta með farsælum hætti og í víðtæku samráði, eins og nokkur kostur er, álitamál sem uppi eru. En aldrei munum við nú hafa neina tryggingu fyrir því að það takist í öllum tilvikum. Það sem ég staldra áfram við í c-lið 2. gr., varðandi stöðu kerfisáætlunar og skipulag sveitarfélaga, er í raun það hversu langt er gengið, eins og sést til dæmis á því að ekki bara spurningin um að samþykkja einhverja línu og á grundvelli þeirrar útfærslu sem kerfisáætlunin felur í sér um loftlínu eða jarðstreng, heldur er lega línunnar beinlínis í landi viðkomandi sveitarfélags þar með ákveðin. Það er auðvitað mjög langt gengið að sveitarfélagið verði bara að kyngja því sem er þá orðin niðurstaða. Jú, jú, auðvitað getur það komið einhverjum sjónarmiðum á framfæri áður, en kannski er það mjög ósátt við að línan sé ekki lögð einhvers staðar annars staðar, en einnig það er frá sveitarfélaginu tekið eftir að kerfisáætlun er samþykkt.

Svo vildi ég gjarnan, herra forseti, að ráðherra tjáði sig um það sem ég tók hér upp varðandi kynningu Landsnets á Sprengisandslínu síðar í umræðunni eða í umræðu um þingsályktunartillöguna á eftir. Er hæstv. ráðherra ekki sammála því að ástæða sé til að fara fram á það við fyrirtækin að þau bíði með þessi áform þangað til vinnunni hér er lokið að þessu leyti og ný landsskipulagsstefna fyrir miðhálendið er gengin í garð? Þó að það kosti veturinn þá mun nú ekki gerast mikið, held ég, uppi á miðhálendinu í mati á umhverfisáhrifum hvort sem er á þeim tíma. Mér finnst það algjört frumhlaup hjá þessum aðilum að vaða af stað með þetta akkúrat núna á þessum tímapunkti fyrir nú utan að ég veit ekki hvaðan peningarnir koma hjá Vegagerðinni til að fara að eyða peningum í umhverfismat uppi á Sprengisandi, sem ég hélt (Forseti hringir.) að væri nú ekki framarlega í samgönguáætlun, herra forseti, og ég veit að hæstv. forseti veit ýmislegt um það mál.