144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

raforkulög.

305. mál
[14:51]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir yfirferð á frumvarpinu. Mér finnst stundum eins og ég sem þingmaður standi hér sem fulltrúi fyrir sveitarstjórnarflokkinn þegar kemur að ýmsum skipulagsmálum sem eru á dagskrá og ég leyfi mér að ræða um þetta sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður.

Í fyrsta lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra, og það kann að vera að það hljómi barnalega, um það sem stendur í 9. gr. a, en þar er talað um flutningsfyrirtækið. Ég veit að það er Landsnet, hæstv. ráðherra, en hvarflar aldrei að neinum að það geti komið annað fyrirtæki inn sem vildi taka þátt eða mundi hugsanlega vilja vera aðili að þessu? Að hafa orðið með ákveðnum greini er í það minnsta að mínu mati svolítið sérstakt.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra nánar um kerfisáætlunina. Við þekkjum það að eins og flutningi rafmagns er háttað í dag standa mörg sveitarfélög frammi fyrir því að þriggja fasa rafmagn er ekki komið til þeirra og það stendur sveitarfélögunum fyrir þrifum í ýmissi nýsköpun, tökum bara landbúnað sem dæmi þar sem ekki er hægt að taka upp nýjungar í þeirri grein vegna þess að þar vantar þriggja fasa rafmagn. Þegar talað er um þörf raforku, um þróun raforkuframleiðslunnar, raforkunotkunar, markaðsþróun og annað í kerfisáætluninni er verið að taka þessa þætti þar inn?

Virðulegur forseti. Ég hef áhyggjur af skipulagsmálum sveitarfélaga. Þrátt fyrir að hæstv. iðnaðarráðherra segi að gott og mikið samstarf hafi verið haft við sveitarfélögin þá langar mig að leggja áherslu á og spyrja hæstv. ráðherra um það sem segir hér að stefna stjórnvalda muni ráða í lagningu raflína. Í frumvarpinu sjálfu segir að sveitarstjórnum beri við næstu endurskoðun aðalskipulags, og eigi síðar en innan fjögurra ára frá samþykkt kerfisáætlunar, að samræma skipulagsáætlanir vegna verkefna í staðfestri tíu ára kerfisáætlun. Er það að fullu með samþykki sveitarfélaga að svo eigi að vera, að þeim beri og þau eigi?

Það stendur sömuleiðis í greinargerð um frumvarpið á bls. 6 og 7, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er því að kveða í lögum á um stöðu kerfisáætlunar gagnvart skipulagsvaldi sveitarfélaga þannig að stjórnsýsla þessara mála sé skýr og tryggt verði að allir nauðsynlegir hagsmunaaðilar geti komið að málum frá upphafi.“

Engu að síður ber sveitarfélögum að gera þetta og hitt. Mér finnst því löggjafinn oft seilast langt, ekki bara í þessu máli, heldur mörgum öðrum málum, inn á skipulagsvald sveitarfélaganna, og ég óttast örlítið það sem sett er í frumvarpið. Á bls. 7 segir m.a., með leyfi forseta:

„Til að tryggja að kerfisáætlun hafi ákveðna stöðu gagnvart skipulagi sveitarfélaga […] er í frumvarpinu lagt til að sveitarfélögum beri …“ o.s.frv.

Virðulegi forseti. Ég er ekki að leggjast gegn frumvarpinu sem slíku, mér er algjörlega ljóst að þessi mál þurfa að vera í farsælu ferli, að aðilar þurfi að koma að frá fyrsta fasa, ef við getum orðað það svo, og vera með í því hvernig þetta fer í gegnum þéttbýli eða dreifbýli og skoða út frá því. Ég get samt ekki og gat ekki, virðulegur forseti, orða bundist vegna þess að mér finnst fyrirmælin í þessu vera með þeim hætti að sveitarfélögunum beri skylda til að laga sín skipulagsmál að því sem kerfisáætlunin segir til um.

Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra, ég segi nú ekki fullvissaði mig um að fyllsta tillit yrði tekið til skipulagsvalds sveitarfélaga heldur færi nánar yfir þetta. Ég veit að hæstv. ráðherra hefur gert það í andsvari við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon og ráðherra kom líka inn á það í ræðu sinni að hún teldi að málið hefði verið unnið í samvinnu og að í frumvarpsgerðinni hefði fullt tillit verið tekið til sveitarfélaganna og að Samband íslenskra sveitarfélaga sé sátt. Vissulega er Samband íslenskra sveitarfélaga samband sveitarfélaga vítt og breitt um landið. En við sem erum fyrrverandi sveitarstjórnarmenn eða núverandi sveitarstjórnarmenn vitum samt að skipulagsmálin eru oftar en ekki pólitískt eldfim mál í hverju og einu sveitarfélagi. Þess vegna, virðulegur forseti, langaði mig að koma þessu að í ræðu minni.