144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

stefna stjórnvalda um lagningu raflína.

321. mál
[15:33]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þá víkur að þessari þingsályktunartillögu um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Það er alveg ljóst í mínum huga að ramminn sem hér er dreginn upp er framför frá því sem við höfum búið við. Hið einfalda svar Landsnets eða dreififyrirtækja hefur verið að kostnaðurinn eigi að ráða þessu og að menn hafi jafnvel takmarkaðar ef nokkrar heimildir til að víkja frá því að velja ódýrasta kostinn. Það er að sjálfsögðu ekki ástand sem við getum búið við. Að vísu hefur sú þróun vissulega orðið að kostnaðarmunurinn hefur minnkað og jarðstrengir hafa þar af leiðandi orðið fyrir valinu í miklu ríkari mæli en áður var, en fyrst og fremst þegar um lágspennta hluta kerfisins er að ræða. Þó að það sé auðvitað hárrétt áhersla sem lögð er til í tölulið 1.1, að í lágspennta dreifikerfinu skuli meginreglan vera jarðstrengur, þá má segja að það sé orðin niðurstaðan í dag. Mér er eiginlega ekki kunnugt um að á síðustu árum hafi menn lagt loftlínu í lágspennta kerfinu. Þvert á móti hafa þær línur sem notast hefur verið við, og sumar ekkert endilega gamlar, orðið fyrir barðinu á vályndum veðrum og horfið af sjónarhóli og ég held að í öllum tilvikum hafi þá verið lagðir jarðstrengir í staðinn.

Ég tel það sömuleiðis verulega framför að viðmiðunin eða meginreglan varðandi landshlutakerfið, sem sagt spennt kerfi yfir 11 eða 33 eða 66 kílóvött, sé í jörð, þó með þeim fyrirvara sem þarna er að það megi ekki kosta meira en 1,5 sinnum það sem kostaði að leggja loftlínu. Jarðstrengirnir njóta þá vafans upp að því, nema ef einhver rökstudd undantekningartilvik heimili að víkja frá þeirri reglu.

Þá að meginflutningakerfinu sem þetta snýst kannski aðallega um. Þar er meginreglunni snúið við, að þar skuli loftlína vera meginreglan nema annað sé talið hagkvæmara eða æskilegra, m.a. út frá tæknilegum atriðum eða umhverfis- og öryggissjónarmiðum. Nú má velta því fyrir sér hvort þarna eigi yfir höfuð að vera nokkur meginregla, hvort það eigi ekki bara að vera einhvers konar opinn flokkur þegar komið er að meginflutningakerfinu. Það á ekkert endilega að taka það fram að loftlína sé meginreglan frekar en jarðstrengur.

Þegar kemur svo að afmörkuðum köflum sem annað geti gilt um á grundvelli viðmiða sem eru síðan talin upp þá eru þau: Ef lína er innan skilgreinds þéttbýlis, ef línuleið er innan friðlands sem verndað er sökum sérstaks landslags á grundvelli 53. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, ef línuleið er við flugvöll þar sem sýnt er að loftlína geti haft áhrif á flugöryggi og ef línuleið er innan þjóðgarðs. Hér geri ég strax þær athugasemdir að mér finnst skilgreiningin of þröng þegar kemur að friðlöndum eða þjóðgörðum. Ég held að menn ættu þarna að leita að orðalagi sem væri opnara hvað það snertir, eins og að sama gæti átt við ef lína er í næsta nágrenni, t.d. innan sjónmáls frá þjóðgarði eða friðlýstu svæði. Þjóðgarður eða friðlýst svæði er stundum byggt sérstaklega á því að ákveðin landslagsheild hefur verið friðlýst. Það er gjarnan þannig að menn reikna síðan með áhrifabelti út frá þeirri friðlýsingu sem nýtur ákveðinnar verndar þó að það sé ekki innan hins friðlýsta svæðis eða innan þjóðgarðsins, þ.e. ákveðið belti í kring sem menn eiga að hafa í huga að sé næsta nágrenni við slík verðmæti. Það sama finnst mér að ætti að gilda um línurnar, þ.e. ef leiðin liggur um þjóðgarð eða friðlýst svæði eða er í næsta nágrenni við hann þannig að það hafi til dæmis bein sjónræn áhrif og hafi þar af leiðandi áhrif á landslagsheildina eða víðernið sem verið er að vernda.

Síðan er fjallað um það í lið 1.3, 5. tölul. hvað skuli gera í framangreindum tilvikum ef um eitthvað af þessu er að ræða, þ.e. friðland, þjóðgarð, nágrenni við flugvöll o.s.frv. Þá er aftur á ferðinni þessi 1,5 sinnum regla yfir kostnað jarðstrengs á móti kostnaði við loftlínu, en þar segir „á viðkomandi kafla“ og þá vandast málið. Er endilega réttlætanlegt að þrengja þetta niður í að kostnaðurinn á mjög afmörkuðum kafla á langri flutningsleið megi ekki vera meiri en 1,5 sinnum loftlína, þá fari línan í loft?

Við skulum taka konkret dæmi sem allir ættu að þekkja. Það er byggðalínan þvert yfir Eyjafjörðinn sunnan við flugvöllinn á Akureyri. Ef við stillum dæminu þannig upp að framkvæmdin sé endurbygging og styrking byggðalínunnar á allri leiðinni frá Blönduvirkjun austur að Kröflu og áfram þaðan í Fljótsdal, mörg hundruð kílómetra leið, 300–400 km, giska ég á, eiga menn samt að vera bundnir af einhverri viðmiðun um að kostnaðurinn þvert yfir Eyjafjarðarbotninn rétt sunnan við flugvöllinn megi ekki vera nema 1,5 sinnum loftlína á sama bút? Eða eiga menn að segja: Við erum að tala hér um gríðarlega langa og mikla flutningsleið, tugmilljarða framkvæmd jafnvel, og hvað með það þó að kostnaðurinn á einum stuttum bút verði tvöfaldur eða þrefaldur ef það þýðir að frekar verður hægt að ná samstöðu og skapa frið um framkvæmdina í heild?

Þetta held ég að menn verði að leggjast vel yfir og rýmka eitthvað svigrúmið í þessum efnum. Gæti það ekki verið góður kostur fyrir báða aðila að sættast á jafnvel talsvert dýrari lausn á einhverjum stuttum legg fram hjá þéttbýli eða við flugvöll eða fram hjá þjóðgarði þó að það væri eitthvað út fyrir kostnaðarmörkin á viðkomandi kafla eins og þarna er orðað? Þetta held ég að nefndin þurfi að leggjast vel yfir.

Varðandi vörugjöldin er ánægjuefni að samstaða er orðin um að fella þau niður. Ég flutti frumvarp um þetta í fyrra sem menn heyktust á að afgreiða fyrir þinglok í vor sem leið af því að það hefði getað haft einhver smávægileg áhrif á tekjur ríkissjóðs, var mér sagt. Ég taldi að þetta væri orðið svo einboðið að það væri ekki eftir neinu að bíða með að jafna þennan mun. Satt best að segja er furðulegt að þetta skuli hafa verið svona. Það mega allir taka það til sín, ég þar með talinn. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en nefndarstarfið fór í gang að jarðstrengjunum væri mismunað beinlínis þeim í óhag með vörugjöldum sem efni í loftlínu bæru ekki. Það er þá ekki seinna vænna en að kippa því út úr myndinni. Ef eitthvað er væri auðvitað frekar ástæða til þess að stjórnvöld stuðluðu að því að bæta samkeppnisskilyrði jarðstrengjanna þeim í hag þannig að þeir væru fýsilegri kostur en ella fyrir flutningskerfið.

Hér er aðeins minnst á rannsóknir sem ég tel sömuleiðis ágætt að gera. Umræðan byggði á dálítið brotakenndum upplýsingum og að einhverju leyti var hreinlega ágreiningur uppi um það hvort menn væru að tefla fram réttum upplýsingum um kostnaðarmuninn. Gögn fóru að berast erlendis frá sem bentu til þess að það hefði dregið mun meira saman í kostnaði með jarðstrengjum og loftlínum en menn vildu vera láta hér í umræðunni heima þar sem oft var hampað mjög háum tölum, fimmföldum til tíföldum mun. En veruleikinn er sá að það hefur orðið það mikil þróun í gerð jarðstrengjanna að þeir eru fullkomlega samkeppnisfærir allt upp í að minnsta kosti 66 kílóvött og jafnvel 132.

Það er alltaf spurning um hversu metnaðarfull markmið menn vilja setja sér í þessum efnum. Það er lítillega komið inn á fyrirkomulagið á þessu í öðrum löndum og vitnað þá bæði í Noreg og Danmörku. Óskaplega yrði ég glaður ef við yrðum sammála um það hér á Alþingi Íslendinga að hafa ekki minni metnað í þessum efnum en til dæmis Danir sem ganga mjög langt í því að láta raflínur hverfa í jörð. Auðvitað er Danmörk minna land, flatt og láglent og allt það og kannski skýrir það að einhverju leyti muninn sem er á milli áherslna í Noregi og Danmörku í þessum efnum, en ég tel að við Íslendingar eigum tvímælalaust að setja markið hátt (Forseti hringir.) vegna þeirra ríku hagsmuna sem við eigum af því að vernda náttúruna enda er hún orðin undirstaða stærstu atvinnugreinar landsins þegar kemur að gjaldeyrisöflun ferðaþjónustunnar (Forseti hringir.) og miklir hagsmunir eru í húfi að fórna ekki verðmætum í þeim efnum.