144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

stefna stjórnvalda um lagningu raflína.

321. mál
[15:46]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er að sönnu rétt að Noregur og hin láglenda, mjúka Danmörk eru nokkuð ólíkir heimar að þessu leyti og maður áttar sig alveg á því. Það sama gildir að sjálfsögðu hér að aðstæður eru nokkuð mismunandi eftir landshlutum og eftir því hvort farið er um byggð þar sem er jarðvegur sem hægt er að fella jarðstrengi í eða hvort við erum í fjöllóttu landslagi nú eða þá lengra inn til landsins þar sem meira er um sanda og auðvelt land yfirferðar. En ég held að þetta snúist að lokum aðallega um það hvaða metnað menn vilja reisa sér í þessum efnum.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það sem hún sagði hér um viðmiðin í lið 1.3 og síðan í töluliðum 1–5. Ég væri mjög sáttur við að orðalagið í 5. töluliðnum, þar sem þetta er þrengt niður í viðkomandi kafla, viki fyrir því orðalagi sem er í lið 1.3, þar sem opnað er á að þetta geti tekið til viðkomandi línuleiðar eða afmarkaðra kafla. Í raun og veru finnst mér að hið fyrra eigi að vera svona í forsæti, þ.e. að menn horfi á það hvaða flutningsleið er verið að endurbyggja, hversu mikilvæg hún er í kerfinu, vegna þess að það kemur allt annað út úr dæminu ef við stillum því upp sem afmörkuðum, stuttum kafla á langri og mikilvægri flutningsleið, sem nauðsynlegt sé að styrkja heldur en ef við einskorðum okkur bara við viðkomandi bút af línu.

Ég gæti nefnt mörg önnur dæmi. Það er nærtækt að taka hér línu út á svæði sem hæstv. ráðherra þekkir mjög vel. Þar hafa menn reiknað með að jarðstrengur yrði ofan við byggðina í Reykjanesbæ eða Keflavík, en nágrannasveitarfélög hafa haft mikinn áhuga á því að lengri hluti leiðarinnar færi í jörð, en þá hefur það strandað á kostnaðinum. Þá er þetta orðin spurning: (Forseti hringir.) Eigum við að taka alla endurnýjun línunnar héðan frá, ofan við Reykjavík, og út á Suðurnesin eða eigum við að taka hvern bút fyrir sig?