144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

stefna stjórnvalda um lagningu raflína.

321. mál
[15:48]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég hvet hv. atvinnuveganefnd til að skoða þetta orðalag, hvort hægt sé að ná saman niðurstöðu um þetta.

Ég treysti því að nefndin skoði líka hvort við eigum alltaf — og það tengist þessari spurningu um meginreglu eða ekki meginreglu — að stefna að því að allar háspennulínur fari í jörð. Ég er svolítið hugsi yfir því. Ég hef heyrt forsvarsmenn náttúruverndarsamtaka lýsa því sem sinni skoðun að við eigum að stefna að því. Ég er ekki sammála því að það sé í öllum tilvikum þannig að það sé umhverfisvænsti kosturinn að setja 220 votta háspennulínur í jörð.

Ég nefndi í framsögu minni að þegar farið er yfir hraun og þegar farið er yfir mýrar eða viðkvæm svæði þá fylgir því mikið rask jafnvel þó að línur séu settar í jörð. Það rask er óafturkræft í ljósi þess að háspennulínur eru þannig að hægt er að taka þær niður.

Segjum að innan einhverra ára eða áratuga komi ný tækni sem geri háspennulínur óþarfar. Okkur þykir það kannski óhugsandi í dag en ég er sannfærð um að á einhverjum tímapunkti verður það þó þannig. Þá er kannski betra að eiga þann möguleika að taka línurnar niður, ekki byggja menn hraunið upp aftur.

Þetta eru sjónarmið sem taka þarf tillit til. Ég sagði hér áðan að munurinn á Noregi og Danmörku felist einkum í þeim muni sem er á landslagi þar. Ég hvet okkur til að horfa á þessi mál af yfirvegun og taka tillit til þessara sjónarmiða í stað þess að festa okkur í því að alltaf sé betra að fara í jörð eða alltaf betra að hafa háspennulínur. (Forseti hringir.) Auðvitað er það í þessu eins og svo mörgu öðru að fjölbreytt sjónarmið eiga við.