144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

stefna stjórnvalda um lagningu raflína.

321. mál
[15:50]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu eru mörg sjónarmiðin í þessum efnum. En Ísland er nú líka býsna erfitt land yfirferðar með raflínur. Þó að stærstu og öflugustu línurnar hér á suðvesturhorninu hafi kannski staðið sig vel þá hafa menn fengið að kenna á því að reyna að fara með raflínur yfir veðursvæði; það reynist nánast ógerlegt að láta þær endast. Við þekkjum það til dæmis mjög vel á norðausturhorni Íslands þar sem sums staðar eru ísingarsvæði þannig viðureignar að það er eiginlega borin von að halda þar uppi raflínum.

Síðan má ekki gleyma því — þegar bornir eru saman jarðstrengir og háspennulínur, þá eru menn uppteknir af hinum miklu sjónrænu áhrifum af háspennulínunum — að það er fleira sem kemur til. Þær hafa líka mikil áhrif í nærumhverfi sínu. Það er ósköp leiðinlegt að sitja við fallega fjallatjörn og heyra hvininn í háspennulínu einhvers staðar í loftinu yfir sér þó að maður sé ekki endilega að horfa á hana. Það er til dæmis talsverð hávaðamengun af línunum, þær hafa áhrif á fuglalíf og talsverður fugladauði er tengdur við þær. Það er segulsvið í kringum þær eða spennusvið og þar fram eftir götunum, þannig að það er að mjög mörgu að hyggja.

Ég er ekki endilega þeirrar skoðunar að það sé alltaf og alls staðar sjálfgefið að það eigi að fara í jörð. Það geta verið staðbundnar aðstæður þar sem vega á og meta það mjög vel, ef til dæmis þyrfti að gera sár í úfið hraun og þar með línu í landslagið o.s.frv. Hugsanlega getur einhver blanda af jarðstreng og loftlínum verið ákjósanlegur kostur ef hægt er að láta lítið bera á loftlínunni á einhverjum slíkum kafla o.s.frv. þannig að það er að mörgu að hyggja í þessum efnum. En yfir þetta allt þarf einfaldlega að leggjast og skoða vel.

Ég held að ég hafi nú komið flestu því á framfæri, virðulegi forseti, sem ég ætlaði mér að segja svona við 1. umr. þessara mála. Ég treysti því að viðkomandi þingnefndir leggist vel yfir þetta og þetta verði orðið gott þegar við tökumst næst á við það einhvern tíma undir vorið að afgreiða þetta.