144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

byggingarsjóður Landspítala.

169. mál
[16:53]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er að mörgu og miklu leyti sammála hv. framsögumanni um það sem fram kom í máli hans. Við erum sammála um þörfina á spítalanum. Um það hafa staðið deilur í mörg ár. Það er enginn vafi á að þetta er brýnasta verkefni sem við þurfum að fara í núna. Spítalinn mundi borga sig sjálfur á einhverjum árum vegna hagkvæmari rekstrar. Það eru öll rök fyrir því.

Mér finnst þetta frumvarp gott að því leytinu til að það sýnir að það eru til peningar til að byggja þennan spítala. Það þurfa að koma fleiri uppástungur af þessu tagi fram til að sýna svart á hvítu að það eru til peningar fyrir spítalanum.

Það hefur hins vegar verið sagt í mín eyru að fjármögnunin þurfi kannski að vera meira af því taginu að við borgum þetta öll saman, ekki einhver hluti þjóðfélagsins sem væri vissulega, ef svo yrði, bara þeir ríkustu. Þetta hefur verið sagt í mín eyru. Ég heyrði það vel og mér fannst það umhugsunar virði að við ættum frekar að geta öll sagt að við hefðum borgað þetta en ekki einhver hópur þjóðfélagsins sem segði: Þetta gáfum við ykkur.

Þetta er sem sagt það sem ég velti fyrir mér í þessu máli og ég mun taka afstöðu til þess á þann hátt. Ég bið framsögumanninn að velta þessu fyrir sér.

Mér finnst frumvarpið gott að því leytinu til að það sýnir að það eru til peningar í landinu til að byggja spítala. Það er enginn (Forseti hringir.) vafi á því.