144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

byggingarsjóður Landspítala.

169. mál
[17:01]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ef ég fer 99 ár aftur í tímann hófu konur, sem þá voru að fá kosningarrétt, söfnun fyrir byggingu Landspítalans á því herrans ári 1915. Ég er ekki viss um hvort þær hafi stofnað formlegan byggingarsjóð eins og hv. þingmaður hefur lagt til hér, kannski ekki formlegan en örugglega óformlegan vegna þess að upphaf byggingar Landspítalans, þessa glæsilega húss við Hringbraut — þegar við tölum um Landspítalann horfum við oft einmitt til þeirrar byggingar — má rekja til þessa árið 1915. Á næsta ári eru 100 ár liðin síðan það átak hófst. Í raun og veru er þetta frumvarp til laga sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur fylgt hér úr hlaði, um stofnun byggingarsjóðs Landspítala, af sama meiði.

Það var hins vegar ekki fyrr en árið 1925 eða tíu árum seinna sem Alþingi veitti fyrst fé af fjárlögum til byggingar Landspítala og ári síðar — takið eftir — virðulegi forseti, einu ári síðar var þessi glæsilega bygging fokheld. Þáverandi Danadrottning lagði hornstein að húsinu að mig minnir 26. júní 1926. Þetta er smávegis söguskýring en þó er vert að hafa í huga hvers konar átak það var sem konur settu þá af stað. Nú erum við 99 árum síðar að ræða um nauðsyn á byggingu nýs Landspítala og tölum um það hvernig við getum í raun safnað fé, eins og konurnar sem hófu söfnun árið 1915, til að ráðast í það sem mér finnst eitt allra brýnasta verkefni sem ríkið þarf að framkvæma á næstu árum, þ.e. að byggja nýjan Landspítala.

Hv. þingmaður leggur hér til ákveðna hugmynd í allt það gagnasafn sem er orðið til um það hvernig við getum fjármagnað byggingu nýs Landspítala. Að fara eins og ég hef sagt blandaða leið, leita sátta á Alþingi líkt og okkur tókst í fyrra þegar tillaga var samþykkt með 56 samhljóða atkvæðum um byggingu Landspítala. Það er ályktun Alþingis, vilji Alþingis, sem ríkisstjórn ber að vinna eftir og er vonandi að gera. Hv. þingmaður leggur sem sagt til að áfram verði lagður á auðlegðarskattur, þó í breyttri mynd, og hefur m.a. gefið upp boltann í sáttaumleitunum til að finna pólitíska sáttaleið meðal allra flokka á Alþingi og þar með hjá þjóðinni, leið til að gera þetta að forgangsverkefni á næstu árum og hefja framkvæmdir sem allra fyrst. Þetta er gott inn í þennan gagnabrunn.

Áður hefur verið nefnd leið eins og sú að taka arð af eigum okkar sem við eigum ýmsar og þar eru bankarnir oft nefndir. Ég segi alveg hiklaust Landsbankinn, sem greiðir að mig minnir um 20 milljarða kr. í arð á þessu ári og bíður eftir að greiða meiri arð til ríkissjóðs vegna þess að eiginfjárhlutfall Landsbankans er svo hátt að það er í raun og veru dálítið erfitt að ávaxta það fé. Þar mætti nota hluta.

Menn hafa nefnt sölu ríkiseigna. Við umræðu á þeirri tillögu sem ég flutti fyrir nokkrum dögum, um fjármögnun nýs Landspítala, voru ýmsir möguleikar ræddir og þingmenn ræddu hvað þeim fannst, þar á meðal nefndi einn úr stjórnarliðinu ákveðna leið. Menn hafa líka nefnt sölu á hlutum okkar í bönkunum, þá kannski sérstaklega Landsbankanum sem við eigum mest í. Menn hafa nefnt hefðbundin fjárframlög frá ríkinu í gegnum fjárlög. Já, að sjálfsögðu er það líka möguleg leið. Mig minnir að það hafi verið í þessum ræðustóli, að minnsta kosti var það hv. þm. Frosti Sigurjónsson sem nefndi sykurskattinn í þessu skyni, sem er álíka tillaga og hér er lögð til, að taka ákveðna skattheimtu og auðkenna hana byggingarsjóði Landspítalans.

Ég hef líka heyrt nefnt að taka hluta af veiðigjaldi, það sé hluti af sáttinni að veiðigjald sé greitt og hluti af því fari í þetta samfélagslega verkefni okkar. Og hv. þingmaður nefndi hér áðan leið sem var farin þegar hringvegurinn var lagður og Vestfjarðavegur, þegar var opnað í Djúpinu, en þá voru gefin út happdrættisskuldabréf. Það er gaman að segja frá því að ég veit ekki hvað ég hef fengið marga tölvupósta frá eldra fólki sérstaklega, sem greinilega tók í því samfélagsátaki, keypti happdrættisskuldabréf, lagði pening fram sem var notaður í hringveginn og Vestfjarðaveg og átti jafnvel möguleika á því að vinna peningaverðlaun í útboði. Síðan var það greitt upp, en átakið tókst.

Síðast en ekki síst hefur verið nefnt að hefja lántöku hjá lífeyrissjóðunum sem eru sneisafullir af peningum. Þessar tölur eru svo fljótar að breytast, virðulegi forseti. Ég var einhvern tímann með töluna 150 milljarða á ári sem væri fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna. Ég hygg að sú tala sé hærri. Lífeyrissjóðirnir eru í vandræðum með að finna góða fjárfestingarkosti til að ávaxta sitt fé. Ég nefni þá leið líka.

Virðulegi forseti. Ég sem 1. flutningsmaður að tillögu sem nú er komin til velferðarnefndar, tillögu um að skipa þverpólitíska nefnd allra flokka á Alþingi til að leita fjármögnunarleiða sem allir yrðu sáttir við og koma framkvæmdinni í gang, ætla ekki að úttala mig um neina af þessum leiðum vegna þess að mér finnst nauðsynlegt að allt sé haft opið. Ég hika ekki við að segja það, virðulegi forseti, að ég ætla mér að vinna að því að sú tillaga fái brautargengi og að okkur takist að mynda allsherjarsátt á Alþingi um að vinna þetta verkefni og koma því til framkvæmda.

Eitt í viðbót sem var nefnt hér áðan af hv. þingmanni var Framkvæmdasjóður aldraðra og ákveðið gjald sem hver greiðir sem notað er til verkefna sem þar eru.

Þannig að það eru allar leiðir til. Leiðirnar eru til. Verkefnið er bara svo brýnt, miklu brýnna en svo að það dugi að segja að verkið sé komið í gang og við sjáum í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár að veittar eru 70 millj. kr. til áframhaldandi hönnunar á sjúkrahóteli.

Nú ætla ég að koma í seinni hluta ræðu minnar að nauðsyn þessarar framkvæmdar.

Okkur hafa birst enn þá fleiri fréttir af Landspítala um þetta gamla húsnæði sem vafalaust hefur ekki fengið það viðhald í gegnum árin sem hefði þurft. Við höfum heyrt í fréttum í viðtölum við yfirlækna um myglusveppinn sem kom upp í fyrra og leiddi til þess að margir af okkar færustu sérfræðingum í hjartasjúkdómum veiktust. Nú það síðasta sem var frekar ógeðfellt að í sjálfri höfuðstofnun heilbrigðisþjónustu á Íslandi hafi greinst einhverjir maurar sem ég man ekki hvað heita, en ég heyrði í fréttum að unnið væri að því að fá eiturefni til landsins þá um kvöldið, vafalaust með DHL eða einhverri hraðflutningaþjónustu, til að útrýma þeirri óværu.

Síðan hafa okkur birst myndir af ýmsu innan Landspítalans. Læknar sem festast í lyftum, sjúklingar sem festast í lyftum, sjúklingar sem þurfa að liggja á gangi. Við höfum ekki fengið myndir af sjúklingunum sem koma í einhverja dagþjónustu og þurfa jafnvel að fara inn á býtibúr eða sótthreinsunarbúr til að fá þjónustu og svo framvegis. Auk þess erum við enn þá með allt að sex manna sjúkrastofur. Mér er það ákaflega minnisstætt, virðulegur forseti, þegar ég lagðist inn á spítala fyrir einu og hálfu ári síðan. Ég fékk auðvitað heimsókn af ættingjum og einn ættingi minn orðaði það svo: Hefðir þú einhvern tímann bókað þig inn á hótelherbergi með þeim sem liggur við hliðina á þér? Nei, það hefði ég örugglega ekki gert. Þetta var bara tveggja manna stofa, að vísu ágætismeðbúendur ef svo má að orði komast, þeir voru nokkrir. En þetta er staðan sem við stöndum frammi fyrir.

Við stöndum frammi fyrir því, virðulegi forseti, að við eigum ekki sum nauðsynleg tæki sem þarf í dag til nútímalækninga. Þau þurfum við að fá þannig að hið unga fólk sem fer út til að sérmennta sig og sækja sér frekari menntun geti komið heim og unnið á þau tæki sem þau hafa unnið með erlendis.

Virðulegi forseti. Það er stundum þannig að læknar sem koma til landsins þekkja hreinlega ekki þessi gömlu tæki sem eru á spítalanum og kunna ekki á þau. Og þótt við ættum peninga fyrir nýjum tækjum kæmum við þeim stundum ekki fyrir, m.a. vegna þess að burður í húsinu er ekki nægur, lofthæð er ekki næg, það er ekki hægt að koma fyrir loftræstingu og svo framvegis.

Ástandið á þessari höfuðstofnun er þannig að það eru þrengsli, það er margbýli á sjúkrastofum, læknar hafa ekki tæki, starfsfólkið hefur afleita starfsaðstöðu, þrönga og erfiða, og svo er það náttúrlega viðhaldið. Má nefna að forstjóri spítalans taldi að ekki minna en 4 milljarða kr. þyrfti bara til bráðnauðsynlegs viðhalds, bara til að halda í horfinu. Þar að auki kemur svo auðvitað hagræðingin af því að fara með spítalann á einn stað.

Þess vegna er brýnast, virðulegi forseti, að strax við næstu fjárlög verði veitt fé að lágmarki 500 millj. kr., sem kemur kannski frá ríkissjóði meðan við erum ekki búin að klára málið, til að ráðast í fullnaðarhönnun á meðferðarkjarnanum. Hann er að mínu mati og mati margra sem vinna á stofnuninni nauðsynlegur fyrsti áfangi. Sá áfangi kostar í heildina 37 milljarða kr. Þar af eru sennilega upp undir 3 milljarðar í hönnun og umsjón og eftirlit sem dreifist á allan tímann, en þarf þó dálítið mikið fyrstu tvö árin eða allt að 1,5 milljarða til að fullhanna. Þá getum við reiknað út þá upphæð sem eftir er, hvað þarf til viðbótar, kannski 4 milljarða til að byrja með á fyrsta byggingarári, fer svo upp í 7 milljarða í tvö, þrjú ár en verður svo minna á síðasta árinu.

Með þessum framkvæmdamáta gætum við sagt við lækna, starfsfólk og sjúklinga og landsmenn að við gætum tekið meðferðarkjarnann í notkun ekki síðar en árið 2021 og í framhaldi af því fengið mjög mikinn fjárhagslegan ávinning af því að flytja má alla starfsemina frá Borgarspítalanum yfir í þetta nýja hús. Þá erum við komin undir eitt þak.

Virðulegi forseti. Í dag erum við í raun og veru að reka fimm bráðamóttökur fyrir eina.

Ég á hér mikið og gott og fallegt blað sem heitir Landspítali fyrir framtíðina sem gefið var út. Hér er viðtal við ýmsa aðila sem starfa við spítalann, sjúklinga og hönnuði og sagt frá öllu sem snertir þetta. Bara með meðferðarkjarnanum förum við úr fimm bráðamóttökum í eina, og skurðstofur, myndgreining og gjörgæsla sameinast á einum stað. Byggingin er að mig minnir sex hæðir frá götu, auk kjallara. Meðferðarstarfsemin verður á neðri hæðunum og legudeild með 180 rúmum á efri hæðum. Með meðferðarkjarnanum gæti okkur tekist að vera með svokallaðan jáeindaskanna, eða PET-skanna, sem við getum ekki verið með á Íslandi í dag en það er nauðsynlegt tæki til að greina krabbameinssjúkt fólk. Í dag árið 2014 er það þannig, virðulegi forseti, að við Íslendingar sem teljum okkur vera dálítið sjálfstæða og mikla og góða þjóð, þurfum að senda þá sjúklinga erlendis til greiningar. Þetta er bara ekki boðlegt.

Þess vegna fagna ég, virðulegi forseti, þeirri tillögu sem hér er flutt og er enn ein hugmyndin inn í hugmyndabankann eins og ég sagði í byrjun um það hvernig við getum lokað þessu máli, búið til samstöðu um þetta stóra og mikla þjóðþrifamál og komið því til framkvæmda.

Ég segi alveg hiklaust, virðulegi forseti, að ef okkur tækist að mynda þennan vinnuhóp allra þingflokka á Alþingi eins og mín tillaga gengur út á og 13 annarra þingmanna, það skulum við hafa í huga, væru það mjög jákvæð skilaboð til starfsfólks Landspítalans sem mundi þá fyllast eldmóði á ný. Það er nýr og betri Landspítali í sjónmáli og framkvæmdir eru að hefjast. Það eru brýnustu skilaboðin sem við þurfum að senda frá Alþingi núna um húsakost Landspítalans.