144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

umferðarljósamerkingar á matvæli.

58. mál
[17:31]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir þessa þingsályktunartillögu sem ég stend að með henni ásamt mörgum öðrum. Hún fór yfir helstu þætti hennar. Ég vil bara taka undir það vegna þess að mér finnst þetta afar mikilvægt mál og held að það sé, eins og þingmaðurinn rakti ágætlega, mikilvægara en margur gerir sér grein fyrir og þá auðvitað fyrst og fremst í tengslum við heilbrigðisþáttinn.

Við stöndum við frammi fyrir því að þjóðin er að fitna og lífsstílssjúkdómar hafa aukist. Ég rak augun í þær tölur sem hér eru raktar: 59% fólks á aldrinum 18–80 ára eru yfir kjörþyngd og 21% flokkast með offitu 2011 en það var 13,1% árið 2002. Þetta er gríðarlega hröð aukning og við vitum að hún er enn á uppleið, því miður.

Nú er mikið talað um að fólk sé meðvitað um hvað það láti ofan í sig og talað um alls konar kolvetnislausa kúra og sykurlausa kúra og nú er mikið búið að tala um sykur, eða það finnst mér a.m.k., og áhrif hans á mataræði fólks. Það er eitt af því sem þessi umferðarljós eiga að ná til, þ.e. upplýsa um innihald sykurs. Ég tek undir það að við eigum ekki að gera ráð fyrir því að allir geti lesið sér til gagns á umbúðir sem eru ekki alltaf á íslensku, þ.e. um allt sem þar þyrfti að koma fram.

Mér datt í hug frammi í kaffinu áðan, þegar verið var að borða kökur og svo var verið að borða kex, að maður smyr eitthvað og telur að það sé kannski svolítið hollara en þegar betur er að gáð þá er það það alls ekki. Það er ekki með minna sykurinnihaldi en sætabrauðið. Þetta er nokkuð sem við þurfum að vera vel meðvituð um.

Ég held að þegar við höfum fyrir framan okkur eitthvað sem er með litum þá séum við sneggri að versla og ég held að við séum meðvitaðri um það sem við grípum þegar blasir við okkur einhver tiltekinn litur. Auðvitað má segja að ef framleiðendur setja sig upp á móti þessu vegna þess að þeir telja að verið sé að flokka vörur í holla og óholla eða vonda og góða o.s.frv. Vissulega eru framleiddar vörur sem eru misgóðar fyrir okkur. Mér finnst ekkert að því að draga það fram. Við höfum áfram valið og það er ekki eins og við hættum að borða sælgæti eða hættum að borða mjög sykraða vöru. Ég held að það sé ekki endilega það sem gerist, þó að það væri að mörgu leyti æskilegt, heldur verðum við bara meðvitaðri um það hvað við borðum.

Eins og hv. þingmaður kom inn á þá á það ekki að vera eingöngu framleiðendanna að ákveða og segja okkur þegar þeir eru að auglýsa vöru sína að hún sé svo holl og góð. Manni dettur alltaf í hug morgunkornið sem er verið að auglýsa í sjónvarpinu fyrir börnin og eitthvað slíkt. Súkkulaðihringirnir eiga að vera svo ægilega skemmtilegir og allt það. Börnin vilja auðvitað fá þetta þegar þau koma út í búð. Þetta er partur af því að segja að varan sé betri en hún er, finnst mér. Þó að þetta sé eitt af því fáa sem er svo sem þokkalega merkt þá er þetta einmitt dæmi um eitthvað sem við gætum lagfært.

Ég held að það sé líka mikilvægt, eins og hér var rakið, fyrir íbúa sem eru af erlendu bergi brotnir, ekkert síður en margan annan. Maður hefur auðvitað reynslu af því þegar maður fer að velta fyrir sér innihaldi vöru, sérstaklega vegna heilsufarsástæðna eða einhvers annars, þá les maður utan á hvern einasta hlut sem maður kaupir og er lengi að því. Það endar einhvern veginn með því að fólk gefst upp. Þetta mundi held ég verða til þess að einfalda slíkt mjög mikið.

Ég trúi ekki öðru en að þetta mál nái í gegn. Það er tímanlega fram komið. Ég held að ef horft er á það í samræmi og það samþætt við þá lífsstílssjúkdóma sem við erum alltaf að fást við og verða bara fleiri og erfiðari og kosta heilbrigðiskerfið meira ár frá ári þá hlýtur þetta að vega upp á móti þeim. Ég tala nú ekki um þar sem þingmenn úr öllum flokkum eru með á þessu máli, þá hlýtur þetta að fá nokkuð skjóta meðferð í kerfinu. Málið er að koma fram í annað sinn þannig að það er búið að fá umsagnir og búið er að lagfæra það aðeins eða koma með ítarlegri dæmi um það sem gagnrýnt var. Ég held því að málsmeðferð hljóti að geta tekið fljótt af. Auðvitað þarf fyrst og fremst að markaðssetja þetta gagnvart framleiðendum þannig að hægt sé að selja þeim þetta, að þetta sé ekki vont heldur sé öllum fyrir bestu að gera þetta. Ég held að framleiðendur vilji það fyrir hönd okkar neytenda. Þeir eru sjálfir neytendur og ættu að geta sannfærst um að þetta sé hluti af því að taka ábyrgð á eigin heilsu með því að merkja vörurnar með raunverulegu innihaldi svo að allir sjái hvað þeir eru að kaupa.