144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.

274. mál
[17:54]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Við höfum séð það í gegnum árin að Alþingi hefur ekki ráðið við það verkefni sitt sem lofað var strax og eftir að stjórnarskráin var samþykkt árið 1944. Þá strax eða fljótlega eftir það var gefið skýrt í ljós að stjórnarskrána þyrfti að endurskoða. Alþingi hefur ekki ráðið við það í öll þau ár sem liðin eru síðan. Þess vegna var farin ný leið á síðasta kjörtímabili. Þá var lagt fram frumvarp um að skipa stjórnlagaþing. Það kom strax í ljós í umræðum um málið að ekki var samstaða um að skipa slíkt þing þannig að í allsherjarnefnd þar sem hv. þm. Róbert Marshall, sem ég sé að er í salnum, var formaður, var komist að málamiðlun. Það var mjög merkileg málamiðlun og góð held ég. Ákveðið var að mynda sjö manna nefnd, svona „wise men“ væri það væntanlega kallað á útlensku, sem mundi safna saman gögnum um það sem til væri um vinnu við stjórnarskrá, og skyldi undirbúa þjóðfund þar sem átti að kalla saman 950 eða um 1 þúsund manns. Nöfn þeirra átti að draga út úr þjóðskrá þannig að það væri rétt kynjahlutfall, búsetuhlutfall, aldurshlutfall og hvað það er sem þarf til að svona samkoma endurspegli fólkið í landinu. Þessi þjóðfundur sem kallaður var skyldi setja fram þau markmið og þau hugtök sem fólk teldi að ný stjórnarskrá þyrfti að fela í sér, hvað er það sem við viljum hafa í nýrri stjórnarskrá.

Þessi þjóðfundur þótti takast gífurlega vel og fólk sem hann sat var mjög ánægt. Upp úr honum var útbúin mikil skýrsla, það var stjórnlaganefndin sem undirbjó vinnuna fyrir stjórnlagaþing sem gerði það. Öll þau plögg sem þar lágu fyrir voru upp á einhver hundruð síðna, fræðiritgerðir og hvað veit ég. Síðan átti að kjósa stjórnlagaþing. Það er alveg ljóst að í þjóðfélaginu voru hópar sem gátu ekki hugsað sér fyrir sitt litla líf, eins og krakkarnir mundu segja, að þessi leið væri farin þar sem fólk var að reyna að vinna saman og stefnt að því. Kosningin var úrskurðuð ógild af Hæstarétti, óskiljanlegur gjörningur.

Engu að síður ákvað Alþingi að þeir sem höfðu hlotið kosningu skyldu skipaðir í stjórnlagaráð. Allir sem kosnir höfðu verið tóku sæti í ráðinu nema einn, það kom einn varamaður inn í staðinn. Þetta fólk, 25 manns, vann gífurlega mikla og góða vinnu. Ég held samt sem áður að ekkert fólk hafi tekið að sér jafn vanþakklátt verk og það gerði. Ég held að engri samkomu hafi af valdakerfi landsins verið úthúðað jafn mikið og þessu fólki. Ég held að í framtíðinni sjái það fleiri en ég. Hér á ég við Alþingi, hluta Alþingis. Ég á við háskólaelítuna svokallaða og ég á við forseta Íslands. Algjörlega fyrir neðan allar hellur.

Síðan var unnið úr vinnu ráðsins og borið undir þjóðina hvort hún vildi nota það plagg. Það kom í ljós að meiri hluti þjóðarinnar vildi nota það, en þá stóðu menn uppi hér á Alþingi og brustu á með málþófi og töfðu allt þannig að ekki var hægt að klára málið, þrátt fyrir alla þá vinnu sem hafði farið í málið. Öll sú vinna, allir sérfræðingarnir, allt lesið fram og til baka, endurskrifað, endurskoðað, en alltaf með það að markmiði að halda sig við þær tillögur sem stjórnlagaráðið hafði lagt fram, en líka að þóknast lögfræðingunum sem fannst ekki nógu mikill lagabragur yfir þessu og annað slíkt. Greinunum var ekki raðað rétt saman og þeim var endurraðað og reynt að gera tillögu um það. En engu að síður var málið stöðvað í þinginu. Það var einfaldlega málþóf sem stöðvaði það að málið færi fram.

Á þessu kjörtímabili er skipuð stjórnarskrárnefnd. Ég sit í henni. Það eina sem var gert á síðasta kjörtímabili var að samþykkt var bráðabirgðaákvæði þannig að núna er hægt að breyta stjórnarskránni með miklum meiri hluta á Alþingi og í þjóðaratkvæðagreiðslu með mjög háum þröskuldum. Það þurfa mjög margir að taka þátt í atkvæðagreiðslunni og það þurfa 40% kosningarbærra manna í landinu að samþykkja slíka breytingu. Það er því alveg ljóst að ef það á að gera eitthvað í því þyrftu að vera aðrar kosningar, vegna þess að annars nærðu ekki saman öllum þeim fjölda sem til þarf.

Hugsanlega nær sú nefnd sem ég hef þann heiður að sitja í að leggja fram einhverjar tillögur á næsta þingi sem síðan væri hægt að leggja fram með forsetakosningum árið 2016. Ekki skal ég um það segja. Það er ljóst að það yrði aldrei heildarendurskoðun á stjórnarskránni, ég held að það sé alveg ljóst að segja það, en kannski einhverjar greinar.

Það er náttúrlega ekki hægt að koma þannig fram við þjóðina sem hefur samþykkt að leggja þessa tillögu til stjórnarskrár til grundvallar. Það hlýtur að vera skylda stjórnmálamanna í landinu að koma fram á þessu kjörtímabili með frumvarp sem er byggt á þeim tillögum. Það væri þá hægt að leggja það fram á hausti 2017. Er það ekki 2016, kosið 2017, er það ekki þannig? Það er hægt.

Ég skora á þingmenn að hlusta nú á fólk. Það mætti hér í gær. Það á eftir að mæta aftur. Og það er að tala við okkur hérna inni. Við eigum að hlusta á það sem kjósendur okkar segja.