144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

tekjustofnar sveitarfélaga.

29. mál
[18:16]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, sem felur það í sér að lagt er til að lágmarksútsvar verði afnumið.

Frumvarpið er tiltölulega einfalt. Gert er ráð fyrir því að orðin „eigi lægra en 12,44%“ í 1. mgr. 23. gr. laganna um tekjustofna sveitarfélaga falli brott og að lögin öðlist þegar gildi.

Þetta mál var áður lagt fram á 135. þingi og 141. þingi af hv. þáverandi varaþingmanni Sjálfstæðisflokksins, Erlu Ósk Ásgeirsdóttur, og endurflyt ég það mál ásamt nokkrum meðflutningsmönnum, hv. þingmönnum Ragnheiði Ríkharðsdóttur, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Pétri H. Blöndal, Vilhjálmi Bjarnasyni og Vilhjálmi Árnasyni.

Forsaga málsins er sú að þegar lögum um tekjustofna sveitarfélaga var breytt árið 1993 voru sett inn þessi mörk um hámarksútsvar ásamt því að lágmarksútsvar var tekið upp. Þetta var umdeilt ákvæði vegna þess að það hafði í för með sér verulega hækkun á útsvari sumra sveitarfélaga.

Við höfum oft talað hér í ræðustól Alþingis um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og við sem höfum starfað í sveitarstjórnargeiranum ásamt öðrum störfum þekkjum þá umræðu. Í stjórnarskránni, 78. gr., er sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga staðfestur og þar er kveðið á um að sveitarfélögin skuli sjálf ráða sínum málefnum eftir því sem lög ákveða.

Það þurfa auðvitað að koma til mjög sterk rök ef löggjafinn vill skerða og ganga inn á þennan sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Þess vegna er þetta frumvarp lagt fram vegna þess að flutningsmenn telja að bein íhlutun um lágmarksútsvar geti tæpast talist uppfylla þau skilyrði. Það er óeðlilegt að það sé bundið í lög að sveitarfélög séu skyldug til að hafa ákveðið lágmark. Það er sveitarfélagsins að rækja lögbundið hlutverk sitt og það er fólgið í sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga hvernig það er gert. Of mikil afskipti löggjafans af því hvernig og hvaða skilyrði þurfi að uppfylla að þessu leyti teljum við vera of viðurhlutamikil.

Ég mæli með því, herra forseti, að frumvarpið gangi til umhverfis- og samgöngunefndar. Sumir hefðu talið að það ætti að fara til efnahags- og viðskiptanefndar, en síðast þegar þetta mál kom fram fór það til samgöngunefndar vegna þess að þar er rætt um málefni sveitarfélaganna. Ég tel að það sé réttur farvegur að vísa þessu til þeirrar nefndar.

Í greinargerð með frumvarpinu eru raktir helstu tekjustofnar sveitarfélaganna sem eru útsvarið, fasteignaskattur og aðrar þjónustutekjur. Þessar tekjur nota sveitarfélögin til að sinna sínum lögbundnu hlutverkum. Við erum ekki að leggja hér til neinar breytingar á því lögbundna hlutverki en teljum hins vegar rétt að vilji sveitarfélög lækka útsvar sitt eigi það ekki að vera bannað.

Ég vonast til þess að þetta mál fái skjóta og góða afgreiðslu í nefndinni og vonast eftir umræðum hér í þingsalnum um þessa tillögu.