144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

tekjustofnar sveitarfélaga.

29. mál
[18:23]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er fylgjandi því að fólk geti kosið með fótunum, þ.e. að það flytji sig á milli staða eftir því hvar er best að búa. Ég trúi því að það sé einfaldlega bara hollt og gott fyrir sveitarfélögin að vera í slíku umhverfi.

Nú er það svo að nágrannasveitarfélög eru oft í mjög miklu samstarfi og gera með sér samninga og félög, samrekstrarfélög, um ýmis atriði, m.a. rekstur skóla, rekstur sorphirðu og fleira mætti telja. Minnstu sveitarfélögin eru flestöll í mjög miklu samstarfi við nágrannasveitarfélög og þá eru reglur þeirra á milli um það hvernig kostnaður skiptist. Jafnframt er tiltölulega algengt að börn sæki t.d. skóla í nágrannasveitarfélagi ef sá skóli er nær þeim, frekar en að keyra með skólabíl í skóla sveitarfélagsins. Þetta er t.d. dæmi um í Ölfusi þar sem börn fara í Hveragerði í skóla.

Annað dæmi um lítið sveitarfélag sem er í miklu samstarfi við nágranna er Ásahreppur í Rangárvallasýslu. Það er lítið sveitarfélag en á í samstarfi við sína ágætu granna, Rangárþing eystra og Rangárþing ytra, sýnu meira við Rangárþing ytra, t.d. um skólamál og leikskóla. Og auðvitað eru þá samræður þar á milli um kostnaðarskiptingu.