144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

tekjustofnar sveitarfélaga.

29. mál
[18:24]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég má til að velta upp nokkrum spurningum varðandi það að afnema lágmarksútsvarið. Hvers vegna var lögunum breytt 1993? Ég þekki ekki alveg þá sögu en í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Þegar lögum um tekjustofna sveitarfélaga var breytt árið 1993 voru sett inn ný mörk um hámarksútsvar ásamt því að lágmarksútsvar var tekið upp. Ákvæðið um lágmarksútsvar var umdeilt, m.a. vegna þess að það leiddi til verulegrar hækkunar á útsvari sumra sveitarfélaga.“

Veruleg hækkun var hjá sumum sveitarfélögum. Ég velti því fyrir mér hvort það hafi bara hækkað í sömu götu hjá sumum en öðrum ekki, þar sem íbúar í sömu götu eru ekki í sama sveitarfélagi. Ég veit það ekki, ég velti því upp.

Ríkisvaldið hefur undanfarin ár hvatt sveitarfélög til sameiningar í stærri og öflugri einingar til að verða betur í stakk búin til að taka við hinum ýmsu verkefnum af ríkinu, til að færa ákvörðunarvaldið í nærsamfélagið. Sveitarfélögin standa í dag misjafnlega fjárhagslega og fyrir því eru ýmsar ástæður. Sums staðar hafa sveitarfélög einfaldlega fjárfest mjög frjálslega og þá ekki í takt við tekjur eins og hent getur vænsta fólk í pólitík í loforðaflaumi fyrir kosningar. Annars staðar hefur stoðum verið snögglega kippt undan tekjumöguleikum eða lykilfyrirtæki hafa flutt úr sveitarfélögunum og eftir sitja erfiðar fjárfestingar, t.d. vegna hafnarframkvæmda svo eitthvað sé nefnt.

Sum sveitarfélög, og ekkert endilega þau fjölmennustu, eru svo heppin að miklar auðlindir eru í þeirra umdæmi og því miklar tekjur á hvern íbúa á meðan sveitarfélög í næsta nágrenni eru ekki svo heppin. Eru miklar líkur á því að íbúi í sveitarfélagi sem lítið eða ekkert útsvar greiðir samþykki sameiningu við sveitarfélag sem borgar hátt útsvar? Hvaða sanngirni er í því að íbúi við Nesveg 82, sem býr í Reykjavík, borgi hærra útsvar en sá sem býr á Nesvegi 100, sem býr á Seltjarnarnesi? Er ekki nógur munur samt?

Talandi um endalausar sameiningar úti á landi þá sakna ég umræðu um sameiningar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þar sem byggðarlögin liggja algjörlega saman og ekki nema á færi kunnugra að vita hvort þeir séu staddir í Reykjavík, á Seltjarnarnesi eða í Kópavogi.

Á Íslandi eins og annars staðar í heiminum er markvisst unnið að því að viðhalda byggð í dreifbýli og gengur ekkert of vel. Ýmsar aðgerðir eru notaðar svo sem sérstakar aflaheimildir á brothættar byggðir og sérstök stofnun sem vinnur að því að hlúa að dreifbýlinu, sem er Byggðastofnun. Ætlum við að hafa hærra útsvar í þeim byggðum sem eiga á brattann að sækja og hafa misst öflug fyrirtæki og jafnvel aflaheimildir til þeirra sem greiða lægra og jafnvel ekkert útsvar, þangað sem aflaheimildir og þau fyrirtæki eru komin? Ég spyr því: Er þetta nýja byggðastefnan? Ég segi nei. Ég held að við ættum frekar að stuðla að jöfnuði í öllum sveitarfélögum.