144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

tekjustofnar sveitarfélaga.

29. mál
[18:28]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Er það þá skoðun þingmannsins að svigrúmið sem nú er til staðar í lögunum sé ekki til fyrirmyndar? Ætti þess vegna að vera bara ein tala sem öll sveitarfélög ættu að vera bundin við? Þannig er það ekki, það er svigrúm. Þegar sveitarfélög lenda í miklum vandræðum og hafa þurft að leita á náðir nefndarinnar, sem kemur til aðstoðar þegar sveitarfélög eru í verulegum fjárhagskröggum, þá hefur verið gripið til þess ráðs að heimila tímabundið hærra útsvar en lögin og hin almenna regla býður upp á.

Síðan varðandi sameiningar sveitarfélaga þá er það umræða sem væri hollt að taka í þinginu og við þurfum að fara yfir. Ég tel að hægt sé að ná betri árangri í rekstri sveitarfélaganna. Ég tel að hægt sé að fara í frekari sameiningar með það að markmiði að hagræða á toppnum, fækka í yfirstjórn og nýta betur þá sveitarstjóra og bæjarstjóra sem til staðar væru eftir slíkar sameiningar og efla með því líka sveitarstjórnarstigið og þjónustuna. Ég er ekki að undanskilja höfuðborgarsvæðið. Ég tel að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ættu að skoða möguleikana. En það sem löggjafinn og við sem hér störfum þurfum að ræða er hvort við séum tilbúin að koma inn með einhverja hvata til að gera það meira aðlaðandi að fara í slíkar sameiningar. Við gætum verið með einhvers konar hvata í gegnum jöfnunarsjóði.