144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

tekjustofnar sveitarfélaga.

29. mál
[18:33]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins taka til máls um þetta frumvarp, ég er því ekki sammála. Ég kem líka úr þessum sveitarstjórnargeira og ég held að það sem við erum að fást við af hálfu sveitarfélaganna, að það sem þau kalla á sé ekki þetta. Ég held að þetta mál, þ.e. eitt og stakt, hvort sem kemur að því að við endurskoðum þá aðgerð sem útsvar er, sé ekki tímabært og alls ekki sem ein stök aðgerð. Ef við ætlum hins vegar að endurskoða þá tekjupósta sem sveitarfélögin hafa sameiginlegan aðgang að með ríkinu í heild sinni þá er það allt annar hlutur.

Hér var aðeins talað um svigrúmið og ég held að það sé af hinu góða. Það gefur þetta færi sem þingmenn eru að tala um, varðandi það að fella þetta niður, og ég held að það sé alveg nægjanlegt.

Hér var talað um upphaf þessa máls, þ.e. hvers vegna þetta var lagt á. Hér er umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 2007, þegar þetta mál kom fyrst fram, og þar kemur fram að markmiðið er að draga úr þessum mismun, jafna skattbyrðina á landsmenn, þannig að allir taki þátt í því að greiða þessa sameiginlegu þjónustu, lágmarkskostnað við það, sem sveitarfélögin veita íbúum landsins. Ég held að það hafi ekkert breyst. Sveitarfélögin kalla frekar eftir því að fá, hvort sem það er í útsvari eða fjármagnstekjuskatti eða hvar það nú er, auknar tekjur til að standa undir þeim lögboðnu verkefnum sem þau hafa með höndum.

Við þekkjum það alveg hér á þingi að mikið er talað um að þau hafi ekki nægt fé og einhvern veginn virðist þjónusta sveitarfélaganna alltaf þróast í þá átt að verkefnin verða stærri, hafa tilhneigingu til þess. Sumir segja að þau verði betri og ég tel reyndar að svo sé. Þess vegna held ég að þetta eitt og sér sé ekki heppilegt, þetta þyrfti þá í raun að vinnast með heildarskoðun á tekjumöguleikum sveitarfélaga.

Ég er hlynnt sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga. Miðað við þessa umsögn sem hér lá fyrir 2007 — og ég hef ekki trú á að hún hafi breyst miðað við það sem ég hef verið að hlusta á í fjárlaganefnd — þá er væntanlega verið að tala fyrir hönd stærsta hluta sveitarfélaga.

Eins og fram kom í ræðu hv. þm. Páls Jóhanns Pálssonar áðan þá er aðstaða sveitarfélaga mismunandi. Ef þar eru virkjanir; það eru auðvitað sveitarfélögin sem hafa það ágætt. Þau eru sum hver lítil, vilja ekkert endilega sameinast, af því hér var talað um sameiningar, af því þau hafa það gott og eru, eins og framsögumaður sagði, í samstarfi við önnur sveitarfélög, nágrannasveitarfélög sín, um lögboðna þjónustu, því að þau eru svo lítil að þau geta ekki sinnt henni ein og sér þó að þau hafi nægt fjármagn til þess. Þetta eru kannski þau sveitarfélög sem mundu leggja af lágmarksútsvar. Vel má vera að það sé ekki góð skoðun, en ég held að þetta gæti, og tek undir með því sem segir í umræddri umsögn, leitt til einhvers konar skattaparadísar. Mér finnst það bara ekki góð þróun.

Samkeppni milli sveitarfélaga á þessari forsendu þar sem forsendur þeirra til að lifa af, eins og hér kom fram áðan, eru afar mismunandi; meðal annars var komið inn á kvótann og útgerðina og lítið þarf til að kippa stoðunum undan sumum sveitarfélögum og ég held að þetta frumvarp sé alla vega ekki til þess fallið að styðja við þessi dreifðu byggðarlög.

Ég held að við þurfum að finna aðra leið til þess ef við teljum að þörf sé að styðja við þau sveitarfélög sem hafa tækifæri til að fella niður lágmarksútsvar, ef þau hafa það svo gott. Ég mundi vilja hvetja þau til að veita enn öflugri þjónustu ef þau þurfa ekki að leggja á útsvar en ber að gera það lögum samkvæmt. Þau ættu að vera í auknum færum til að gera vel við íbúa sína og laða fólk þannig til sín og þannig leggja allir þeir sem þar búa sitt af mörkum til að samfélagið og sveitarfélagið virki.

Þó að það sé kannski eitthvað sem maður á ekki að ætla fólki, þá getur þetta leitt af sér að fólk velji að flytja lögheimilið sitt en búi ekki á staðnum. Það er ekkert sem segir að það geti ekki gerst. Við verðum auðvitað að hafa þetta allt til umhugsunar þegar við ræðum svona mál af því þetta getur að minnsta kosti haft mjög miklar afleiðingar.

Ég ætlaði svo sem ekki að tala lengi um þetta mál en þetta er mín skoðun á þessu. Aðeins var komið inn á sameiningu sveitarfélaga en ég held að það sé allt önnur umræða. Ég held reyndar að einhvers staðar hafi komið fram rök fyrir því hvers vegna ekki er búið að sameina sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu, hvað sem okkur finnst um þessi mörk. Vel má vera að það sé framkvæmanlegt og æskilegt og geti orðið til hagsbóta fyrir sveitarfélögin á einhverjum tímapunkti eða einhver þeirra, en ég er ekki endilega viss um að það eigi að vera næst á dagskrá og það á alls ekki að beita lögþvingun til þess.

Hér var líka talað um hvort það ætti að vera eitt útsvar, eitt fyrir alla. Í þessu áliti er einmitt nefnt að Norðurlöndin séu annaðhvort með lágmarksútsvar eða eitt útsvar. Við höfum því alveg dæmi um að það sé svoleiðis, það kemur að minnsta kosti fram í þessu áliti frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ég veit ekki hvort það hefur breyst á þeim árum sem liðin eru frá því það var veitt, vel má vera að svo sé. En ég held að við eigum að skoða þetta mál í samhengi við aðrar breytingar á skattkerfinu til handa sveitarfélögunum en ekki að taka þetta eitt og sér út.