144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

tekjustofnar sveitarfélaga.

29. mál
[18:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér fannst rétt að rifja örstutt upp hvers vegna þetta ákvæði var sett sem nú er lagt til að verði tekið burt. Þetta var sem fyrr greinir árið 1993. Ég ætla að lesa úr nefndaráliti frá meiri hluta félagsmálanefndar sem þá var, með leyfi forseta:

„Lögð er til breyting á 6. gr. frumvarpsins. Í gildandi lögum um tekjustofna sveitarfélaga eru ákvæði um að útsvar megi ekki vera hærra en 7,5% af útsvarsstofni. Hvað útsvarið varðar gerir frumvarpið ekki ráð fyrir öðrum breytingum en þeim að þetta tiltekna hámark verði 9,2%. Í breytingartillögunni felst að lágmarksútsvar verði lögbundið 8,4% og eru veigamestu rökin fyrir þeirri breytingu að mismunur á útsvarsálagningu sveitarfélaganna verður minni og útsvarsgreiðslur íbúa landsins jafnari.“

Það er fyrst og fremst af þessum ástæðum sem ákvæðið var sett til að byrja með, að mismunur útsvarsálagningu sveitarfélaganna yrði minni og útsvarsgreiðslur íbúa landsins jafnari. Þótt síðasti punktur minn komi kannski málinu í sjálfu sér ekki við þótti mér það mjög fróðlegt og áhugavert að einn af þeim sem tók undir þetta nefndarálit var enginn annar en hv. 2. þm. Norðvesturkjördæmis, Einar K. Guðfinnsson.