144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég skora á hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur að bæta inn í fyrirspurnina: Hve stór hluti af leiðréttingunni fer beint í bankana?

Það sem ég ætlaði að ræða hér er menntun á Íslandi [Kliður í þingsal.] og ræða það misræmi sem birtist annars vegar í stefnumótun og umræðu á vegum ríkisstjórnarinnar og hins vegar í fjárlagafrumvarpinu.

Ég átti þess kost að sitja ársfund Vinnumálastofnunar í gær undir heitinu „Virkjum hæfileikana – alla hæfileikana“ þar sem vísað er til þess að hlúa þarf einnig að þeim sem einhverra hluta vegna hafa skerta starfsorku og tryggja að þeir fái tækifæri og einnig þeim sem hafa búið hvað lengst við atvinnuleysi. Á þessum ársfundi Vinnumálastofnunar kom enn og aftur fram hversu frábærlega hefur verið unnið að málefnum atvinnuleitenda á liðnum árum, hvernig brugðist var við auknu atvinnuleysi með því meðal annars að bjóða upp á nám þar sem viðkomandi gat í ákveðnum tilfellum haldið atvinnuleysisbótum og fékk greiðan aðgang að framhaldsskólum og háskólum. Þannig gaf verkefnið Nám er vinnandi vegur fjölda ungs fólks tækifæri til að bæta við sig námi. Samstarf ríkis og sveitarfélaga um verkefni eins og Atvinnutorg og nú síðar Stíg stuðlar að því að ungt fólk leiti sér náms eða vinnu.

Nú þegar atvinnuástand batnar og atvinnuleysi minnkar er mikilvægt að tryggja áframhaldandi öfluga ráðgjöf og þjónustu á vegum Vinnumálastofnunar til að tryggja að enginn ákveðinn hópur sitji eftir. Eitt af því sem við þurfum þess vegna að gæta að í fjárlögum er að þá séu fjárveitingar til að sinna þessu verkefni. Þær eru skornar niður í þessum fjárlögum í andstöðu við öll önnur fyrirheit um aukna menntun. Hið sama gildir um menntunarstig íslensku þjóðarinnar þar sem fram kemur í öllum skýrslum, nú nýlega frá Viðskiptaráði, um að menntunarstig hér sé lægra en annars staðar á Norðurlöndunum. Á sama tíma lokum við framhaldsskólanum fyrir ákveðnum hópum og bætum ekkert í framhaldsmenntunina eða símenntunina til að taka á móti þeim hópum.

Það er kominn tími til að þessi ríkisstjórn fari að tryggja að saman fari (Forseti hringir.) orð og efndir.