144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að það fer nettur hrollur um mig ef menn ætla unnvörpum að fara að tala þannig að staða Íslands í efnahagsmálum sé orðin öðrum þjóðum sérstakt öfundarefni. Því miður held ég að það sé ótímabært og mér finnst of stutt síðan hroki, andvaraleysi og „Ísland best í heimi“-mórallinn reyndist okkur ekki vel.

Að öðru ætlaði ég að víkja og það er sú staðreynd, ánægjuleg að mörgu leyti, að ýmsir stjórnarþingmenn hafa hér frumkvæði að tillöguflutningi um hin ýmsu mál sem yfirleitt eru þörf og góð en gjarnan því marki brennd að þau kalla á útgjöld úr ríkissjóði og eru á verksviði framkvæmdarvaldsins. Þar má nefna að gera sérstaka framkvæmdaáætlun um uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu eða sérstaka aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum. Aðrar tillögur eru lóðbeint inni á sviði samgönguáætlunar, þ.e. um hluti sem á að leiða til lykta og ákveða í samgönguáætlun, eins og ef menn ætla að stækka Þorlákshöfn eða „uppgradera“ Hornafjarðarflugvöll í millilandaflugvöll þá mun væntanlega þurfa til þess stefnumótun og samþykki og peninga í samgönguáætlun.

Ég efast ekki um að þingmenn stjórnarliðsins, sem að þessum tillöguflutningi standa, vilji vel en þeir eiga náttúrlega þá leið að beita áhrifum sínum sem hluti af meiri hlutanum hér, sem hluti af stjórnarliðinu, til þess að setja þá meiri fjármuni inn í samgönguáætlun svo að hægt sé að stækka Þorlákshöfn og hægt sé að gera eitthvað á Hornafjarðarflugvelli.

Það leiðir mig að lokum að því, herra forseti, að spyrja: Hvar er samgönguáætlun? Það er algjört tómarúm í þeim efnum. Drög að samgönguáætlun sem komu hingað inn í fyrravor fengu ekki afgreiðslu, þau eru núna ónýt með niðurskurði í fjárlagafrumvarpinu og ekkert kemur í staðinn. Þetta er mjög bagalegt. Af því að ég sé að hæstv. innanríkisráðherra (Forseti hringir.) brosir hér í hliðarsal endurtek ég spurninguna: (Forseti hringir.) Hvar er samgönguáætlun?