144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:39]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Það er ánægjulegt að fá að taka til máls hér af þessu tilefni, um skipulagsmál í Reykjavík. Ég held að fullt tilefni sé til þess að ræða þau miklu meira á þingi og ræða málefni Reykjavíkur. Þetta segi ég þó að ég sé þingmaður Suðvesturkjördæmis.

Nýverið er farið að kalla þessa braut neyðarbraut en lokun hennar hefur lengi verið í bígerð. Það var fyrst rætt um að loka henni í skýrslu frá 1990, skýrslu nefndar sem var meðal annars sett á stofn til að ræða málefni flugvallarins í kjölfarið á hörmulegu flugslysi sem þá hafði nýverið átt sér stað. Það var samkomulag í þeirri nefnd um að það ætti að loka þessari flugbraut, m.a. í öryggisskyni. Síðan var það hluti af samkomulagi ríkis og borgar frá því í október 2013, algjörlega ófrávíkjanlegum hluta þess samkomulags, að þessi braut færi. Deiliskipulagstillagan sem var samþykkt í morgun er í samræmi við þetta samkomulag.

Styrinn sem er um lokun þessarar brautar og öll hysterían — þessi braut var yfirleitt bara kölluð bara norðaustur/suðvesturbrautin en ekki öryggisbraut eða neyðarbraut — (HöskÞ: … styr.) þessi styr, svo við notum íslensku vegna þess að hægt er að orða á íslensku allt sem er hugsað á jörðu, (Gripið fram í.) er nýtilkominn. Það er langur aðdragandi að lokun þessarar brautar og ákvörðun Reykjavíkurborgar er algjörlega í samræmi við aðrar ákvarðanir sem hafa verið teknar.

Á að færa flugvöllinn? Eru til hentugri flugvallarstæði? Það er Rögnunefndin að skoða. Ég tilheyri flokki, já, sem vonar að Rögnunefndin finni hentugra flugvallarstæði. Miklir hagsmunir eru í húfi. Reykjavíkurborg sem hefur skipulagsvaldið vill þétta byggðina. Þarna er mjög verðmætt og mikilvægt byggingarland, 102 Reykjavík, og þess vegna til mikils að vinna. Ríkið getur losað þarna eignir upp á um 70 milljarða í verðmætasta byggingarlandi (Forseti hringir.) þjóðarinnar. Það fjármagnar Landspítala ef út í það er farið. (Forseti hringir.) Já, ég vona að Rögnunefndin finni nýjan (Forseti hringir.) stað sem hentar bæði Reykjavík og landsbyggðinni og við getum haldið áfram öflugu innanlandsflugi þaðan.