144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

orð formanns umhverfis- og samgöngunefndar.

[15:51]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða hér um fundarstjórn forseta og óska eftir aðstoð hæstv. forseta við að fara yfir það hvaða heimildir þingmenn hafa og sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu vegna þess að fyrr í dag voru gerðar athugasemdir við það að stjórnarþingmenn legðu fram mál. Ég kann illa við það, þó að hér sé um ræða athugasemdir frá mjög þingreyndu fólki, að hér sé verið að reyna að segja mér fyrir verkum. Í þessu tilfelli voru talin upp mál sem ég hef lagt fram.

Ég hef fullar heimildir til þess og vonast til þess að hæstv. forseti sjái sér fært að vekja athygli þingheims á skýrslu sem var gefin út af rannsóknarnefnd Alþingis þar sem vakin var athygli á því að þingmenn ættu að vera aðeins sjálfstæðari í sínum störfum gagnvart framkvæmdarvaldinu. Sú skoðun að (Forseti hringir.) þingmenn eigi að vera algjörlega undir hæl framkvæmdarvaldsins í öllum sínum (Forseti hringir.) störfum hugnast mér ekki. (Gripið fram í.)