144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

aðgerðaáætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra.

52. mál
[16:17]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, mér finnst tillagan mjög góð og allir þættirnir er fram koma í henni. Ég tel til að mynda að námskeið eins og nefnd eru í tillögunni fyrir þá sem glíma við geðrænan vanda skipti öllu máli, líka fyrir fjölskyldur þeirra og aðra aðstandendur. Það skiptir líka svo miklu máli fyrir líðan einstaklingsins og fyrir þá sem sinna þeim að hægt sé að greina vandann og bregðast við sem fyrst. Það skiptir máli að vita hvernig við eigum að bregðast við, t.d. við hegðun einstaklingsins, það skiptir máli að við höfum þekkingu á því hvaða aðferð er best að nota, hvernig við eigum að bregðast við þegar einstaklingur á við geðræn vandamál að stríða.

Ég tel þetta vera mjög mikilvægt fyrir þá sem standa að einstaklingnum. Eins og hv. þingmaður benti á þegar hann talaði um hinar háu tölur sem birtust í skimuninni sem gerð var í Breiðholti, væri hægt að ná góðum árangri með það að bregðast við strax. Það sýnir okkur bara það hversu mikilvægt þetta er. Og auðvitað er mikilvægast af öllu að einstaklingar fái þá þjónustu sem þeim ber og fái rétta meðhöndlun.