144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

aðgerðaáætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra.

52. mál
[16:24]
Horfa

Elín Hirst (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er við hæfi að eiga þessa orðræðu úr ræðustól um málefni barna og ungmenna því að í dag eru stödd hér börn og ungmenni til að hlýða á fund okkar á hinu háa Alþingi. Mig langar í framhaldi af máli mínu áðan að klára það sem ég var að greina frá með stofnun sérstakrar þverpólitískrar nefndar þar sem þingmenn taka að sér að verja sérstaklega réttindi barna og unglinga. Fyrir mína parta verð ég að segja að ég hlakka mjög til að byrja á þessu starfi sem allra fyrst og vona að það verði eitt af fyrstu málum hinnar þverpólitísku nefndar þingmanna að taka á þessum málum, þ.e. geðheilbrigðismálum barna og ungmenna.

Ég er sammála hv. þm. Karli Garðarssyni um að þetta heilbrigðisvandamál er stórkostlega vangreint í þjóðfélagi okkar. Ég er ansi hrædd um að vegna þess sem ég sagði áðan, að rödd barna og ungmenna heyrist ekki og það er alltaf hinn fullorðni sem talar, fái þessi mál því miður ekki þá athygli sem þau eiga að fá ef við hugsum um framtíð samfélags okkar og velferð þegna okkar og ég tala nú ekki um velferð þeirra sem við viljum helst að líði vel í samfélaginu, sem eru börnin okkar. Mig langar að segja að það er ekki aðeins að verða vakning á Alþingi Íslendinga í þessum málum heldur hefur Norðurlandaráð, þar sem ég á sæti, tekið þetta mál sérstaklega upp, að það þurfi að bæta mjög hvaða tökum málefni barna eru tekin á þjóðþingum Norðurlandanna og er tillaga þess efnis í gangi um þessar mundir.

Ég vil að lokum beina spurningu til hv. þm. Karls Garðarssonar: Hvað sér hann fyrir sér að þessi þerpólitíska nefnd geti áorkað í málaflokknum?