144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

aðgerðaáætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra.

52. mál
[16:28]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra.

Geðheilbrigðismál hafa verið vaxandi vandi þjóðarinnar á liðnum árum. Það stafar eflaust af mörgum ástæðum og má þar nefna breytta þjóðfélagsmynd, mikið álag og áreiti sem nútímanum fylgir en líka það að úrræði hefur vantað og eftirfylgni mála.

Við vitum að barnæskan og það sem fólk verður fyrir í æsku hefur áhrif á lífshlaup einstaklingsins og því er mikilvægt að grípa inn í ef merki um alvarlega vanlíðan sjást hjá börnum. Með þessari tillögu sýna menn vilja til að bregðast við þeirri staðreynd að of mörg börn glíma við alvarlega vanlíðan auk þess sem flutningsmenn vilja bregðast við hugsanlegum áhrifum efnahagskreppu á líðan barna og fyrirbyggjandi áhrif sambærileg þeim sem meðal annars urðu í kjölfar kreppunnar í Finnlandi eins og flutningsmaður tillögunnar, hv. þm. Karl Garðarsson, fór ágætlega yfir hér áðan. Þetta er gríðarlega aðkallandi verkefni því að eins og fram hefur komið í máli þingmanns og hv. flutningsmanns þá er því spáð að þunglyndi verði önnur helsta orsök örorku í heiminum árið 2020. Þetta er gríðarlega stór vandi sem við stöndum frammi fyrir og þurfum að mæta.

Ég vona að okkur takist að fylgja þessu máli eftir því að veikindi af þessum toga í fjölskyldum hafa áhrif á alla fjölskyldumeðlimi og hafa gríðarleg áhrif til framtíðar. Ef við berum gæfu til að fylgja þessu eftir þá er þetta liður í forvörnum sem okkur ber að leggja áherslu á og byggja upp til framtíðar til að hér verði fleiri hraustir og sterkir einstaklingar sem eru hæfir til að takast á við verkefni daglegs lífs. Því miður er ekki svo. Það eru of margir einstaklingar sem fá ekki þann stuðning, þá leiðbeiningu og það aðhald sem þarf til en oft þarf ekki mikið til til að hjálpa fólki af stað. Ef hægt er að koma auga á hugsanlegan vanda í tíma munum við spara mikið fé og mikla krafta og styðja við samfélagið til framtíðar.

Það hefur verið reiknað út að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að ráðast í átak til að sporna við alvarlegum afleiðingum tilfinningavanda og bjóða upp á bestu mögulegu meðferð í samræmi við klínískar leiðbeiningar. Ég bind því vonir við að við berum gæfu til að fylgja þessu máli eftir og finnum því farveg.