144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

aðgerðaáætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra.

52. mál
[16:32]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að koma hingað upp og ræða þetta mál og lýsa því yfir að ég hefði viljað styðja það á sínum tíma. Þetta var mál sem féll milli skips og bryggju í vor þegar það var sent á þingflokkinn og beðið um meðflutning. Engu að síður styð ég það þó að ég sé ekki ein af flutningsmönnum, enginn frá okkur í VG, af því að ég tel það rétt sem kom fram frá hv. þingmanni og 1. flutningsmanni, þ.e. að málefni barna og unglinga mættu vera fyrirferðarmeiri hér á Alþingi. Ég er ein af þeim sem hafa talað mjög mikið fyrir málum barna og unglinga og meðal annars geðheilbrigðismálum bæði í vetur og síðasta vetur og átt orðastað við heilbrigðisráðherra um þau mál.

Það er eins og við vitum afar bágborið ástand í samfélaginu í þessum málum, sérstaklega hjá börnum en ekki síður hjá fullorðnum. Ég held, eins og hér kom fram áðan, að við séum öll sammála um að góðar forvarnir í þessum efnum skipta máli og eru þegar til lengri tíma er litið þjóðhagslega hagkvæmar ef við viljum setja þann stimpilinn á það.

Skimanir eru til og hafa verið stundaðar með ýmsum hætti í grunnskólum og framhaldsskólum og víða. Það er kannski ekki alveg nýmæli sem slíkt og ég þekki það af eigin raun, komandi úr bæði grunnskóla og framhaldsskóla sem námsráðgjafi, að þetta er eitt af því sem við reynum að gera, þ.e. að veiða þau börn sem við teljum að séu í vanda. Eins og þessi tillaga ber með sér þá vantar hins vegar einhverja framhaldsúrlausn. Það eru ekki allir til þess bærir sem geta hugsanlega greint vandann að fylgja honum eftir eða sjá um einhvers konar meðferð.

Hér er hugræn atferlismeðferð til dæmis nefnd og gríðarleg fjölgun hefur orðið í hópi þeirra sem lært hafa hana út um allt land, þó að mesti þunginn sé á höfuðborgarsvæðinu. Námsráðgjafar, sálfræðingar og aðrir hafa einmitt verið að bæta þessu við nám sitt og nýta í störfum sínum þó að það fari ekki endilega hátt. Kannski þyrfti þetta meiri viðurkenningar við, að þetta sé ekki bara einhver óáreiðanleg meðferð því að eins og hér kemur fram og er rakið þá hefur þetta virkað mjög vel.

En svo ef maður horfir til fjárlaganna núna, sem við erum að vinna með, af því að hér eru nefnd PMT og fleiri námskeið og það er fyrsti liðurinn sem talinn er upp í meginþáttum aðgerðaáætlunarinnar, þá stöndum við frammi fyrir því að verið er að skera þá þjónustu niður á Akureyri þannig að það er margt sem fjármunir eru ekki veittir í.

Eftir hrun var þrátt fyrir allt reynt að standa vörð um velferðarkerfið en við vitum að sjaldan er nægilega vel að gert. En núna er ekki verið að leggja peninga í þetta og Barnaverndarstofa hefur óskað eftir því, eins og ég og hv. 1. flutningsmaður þekkjum úr fjárlaganefnd, telur sig ekki hafa nægjanlegt fjármagn til að styðja við bakið á þessari þjónustu á Akureyri.

Hér er líka talað um hverjir eigi að koma að þessu. Mig langar að velta því upp við flutningsmann, af því að hér var talað um að við ættum að hlusta meira á börnin, af hverju eru fulltrúar Heimilis og skóla ekki inni sem talsmenn foreldra og barna. Hér er bara talað um Samband íslenskra sveitarfélaga og embættismenn ráðuneytisins, að hafa slíkan sérfræðihóp. Ég held að það væri vel til fundið og mundi leggja það til í nefndarvinnu að þeim yrði bætt við. Þá værum við komin með fulltrúa þess hóps sem við erum að mestu leyti að fjalla um hér.

Í 5. lið, Barnateymi, held ég að heilsugæslan sé allt of vannýtt hvað það varðar. Hana vantar fé eins og aðrar stofnanir en ég held að við eigum að beina sjónum okkar að þessari frumheilsugæsla þar sem frumgreining getur farið fram, fyrsta aðstoð, styrkja það og efla af því að allt hitt er sprungið. En ég held að þarna getum við leyst alveg ótrúlega mörg mál án þess að þau þurfi að fara alla leið, ef við getum talað þannig, til barna- og unglingageðdeildar eða til Greiningarstöðvar ríkisins sem er löngu búin að sprengja utan af sér rammann. Þá eru málin líka orðin svo stór og þung og það er kannski það sem við viljum reyna að koma í veg fyrir.

Hugræn atferlismeðferð gengur út á það að taka fjölskylduna undir hattinn til að vinna með barnið sitt því að eins og hér var sagt áðan af síðasta ræðumanni þá hefur vandi af þessu tagi áhrif á alla fjölskylduna. Það er ótrúlega stór hópur barna og fullorðins fólks sem á við slíkar raskanir að etja og þær eru auðvitað margs konar.

En varðandi brottfall úr framhaldsskóla þá er kvíði þar undirliggjandi þáttur. Eitt af því sem veldur kvíðanum, að minnsta kosti meðal þeirra nemenda sem ég hef haft afskipti af, er að nemendur finna margir hverjir ekki nám við hæfi, hafa áhyggjur af því að geta ekki stundað það sem þá langar til að gera og finna sig þar af leiðandi ekki; falla þá í þessi þyngsli, vilja ekki koma í skólann o.s.frv. Undirrótin getur verið sú að einstaklingarnir séu eitthvað viðkvæmir fyrir en það getur líka verið námsframboðið eða þá að nemendum er stýrt í eitthvað sem þeir hafa minni áhuga á og það veldur því svo að þeir þróa með sér kvíða og þunglyndi.

Minnst er á tilraunaverkefni í Verkmenntaskólanum en þar hefur sálfræðingur verið í 50% starfi. Það er klárt mál að það hefur haft mikil og góð áhrif. Það hef ég heyrt beint úr þeim ranni. Í mínum skóla, þaðan sem ég kom, í Menntaskólanum á Tröllaskaga, höfum við boðið upp á þessa þjónustu reglubundið, ekki með fastan starfsmann en með reglubundna viðveru sálfræðings og það er ekki spurning að það hefur góð áhrif. Ég vann náið með slíkum aðila áður en ég kom hingað inn á þing, þá byrjuðum við á þessu og áframhald er á þessu núna.

Við erum mismunandi fær til að taka á mismunandi röskunum eða aðstæðum fólks og þess vegna er mikilvægt að geta haft fjármuni til að gera þetta. Þetta ætti eiginlega að vera í hverjum skóla.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja mál mitt frekar. Þetta er gott mál og ég mun styðja það og tel að aðgerðaáætlun verði til góða. Hún er líka til góða til framtíðarfjárlagavinnu, hvernig við viljum forgangsraða fjármunum. Ef það stendur að þessu plaggi verði skilað 1. mars 2015 þá ætti það að geta nýst við rammafjárlagagerð þarnæsta fjárlagaárs. Ég vona svo sannarlega að málið nái fram að ganga.