144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

aðgerðaáætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra.

52. mál
[16:46]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég kem hérna upp til þess að þakka hv. þm. Karli Garðarssyni sérstaklega fyrir að vera með framsögu í þessu máli og koma fram með það. Mér finnst málið mjög brýnt og eitt af þeim málum sem ég held að allir hljóti að geta sammælst um. Ég tek alveg undir með þeim sem hafa sagt að við tölum of lítið um málefni barna og unglinga á Alþingi. Þetta eru einhver mikilvægustu mál sem við getum talað um. Það var nefnt að skima ætti alla grunnskólanemendur. Það er alveg hægt að sjá fyrir hvaða börn koma til með að eiga í vandræðum. Nú eru félagslegar aðstæður barna mismunandi og það er hægt að sjá mjög fljótt, það er jafnvel hægt að sjá það í leikskólunum, hvernig börnum kemur til með að reiða af í samfélaginu.

Það er einu sinni þannig hjá okkur að það er fullt af ungum börnum sem eru í mjög erfiðum félagslegum aðstæðum og hafa því miður ekki fengið hjálp. Ég tala af reynslu sem kennari. Ég kenndi eitt ár í grunnskóla suður með sjó. Ég hafði þann háttinn á að tala mjög opinskátt við börn um líðan og til dæmis um fíkniefni og brennivín og hinn félagslega þátt. Einu sinni spurði ég nemendur mína að því hvernig þeim liði almennt. Þau tóku því sem svo að ég væri að spyrja hvernig þeim liði í skólanum. En ég sagði: Nei, í lífinu. Þá brustu þrjár stúlkur í 10. bekk í grát vegna þess að líf þeirra var ekki nógu gott, þeim leið ekki nógu vel. Oft er það þannig með blessaða unglingana að þeir síðustu sem þeir leita til eru foreldrarnir, því að þeim finnst foreldrarnir alltaf óspennandi og leiðinlegir. Reyndar varpaði ég þeirri spurningu til unglinganna þá hvort þeir héldu að foreldrunum væri illa við þá og væru þess vegna að djöflast svona í þeim, hvort þeir gerðu sér ekki grein fyrir því að foreldrunum þætti svona vænt um þá. En félagslegar aðstæður eru mismunandi og ég hjálpaði til dæmis þessum þremur stúlkum að leita sér hjálpar á viðeigandi stöðum og á þremur mánuðum gjörbreyttist líf þeirra. Það er bara þannig.

Þegar við ræðum þessi mál Alþingi er alltaf talað um kostnað. Geðheilbrigðismál á Íslandi eru alls ekki í nógu góðu lagi, bara alls ekki í nógu góðu lagi eins og kom fram í ræðum fleiri þingmanna, það er t.d. einn geðlæknir á Norðurlandi og nánast allir aðrir hérna suður frá, á þessu svæði. Það er náttúrlega alveg óviðunandi staða.

Mér finnst líka að við eigum í nákvæmlega þessum sal og þessum ræðustól að tala meira um umhyggju og kærleika í samfélaginu. Mér finnst svolítið vanta upp á það. Það er einmitt það sem börn þurfa langmest af öllu, það er umhyggja og kærleikur. Við sem búum úti í þessum sveitarfélögum og annars staðar, við vitum hvar skóinn kreppir og við getum alltaf gripið inn í og hjálpað til.

Mig langar til að segja frá því hér, ég veit ekki hvort það er viðeigandi, að ég starfaði í öðrum skóla, ekki grunnskóla, fyrir þremur árum síðan og þá komum við konan mín með uppástungu um að hjálpa börnum sem voru á framfæri bæjarfélagsins, þáðu bætur, félagslegar bætur. Þetta var 18 ára stúlka og 19 ára drengur sem voru í raun að rotna heima hjá sér í þunglyndi og höfðu enga sjálfsmynd. Á sex vikum tókst mér að snúa þeim við, trúnni á þeim. Ég var með þeim á hverjum einasta degi í sex vikur og hjálpaði þeim. Sjálfsmynd þeirra var gjörsamlega í rúst en á sex vikum breytti ég því. Núna, tveimur og hálfu ári seinna, eru þessi ungmenni bæði í skóla og að vinna og eru orðnir nýtir þegnar, einungis vegna þess að maður gaf sig að þeim. Mér finnst stundum, með fullri virðingu fyrri öllum sem starfa við slík mál, þurfa að koma að þessu með miklu meiri nærgætni og kærleika, að við sýnum viðkomandi að það sé hægt að treysta okkur og að við meinum það sem segjum. Það er oft erfitt.

Auðvitað er víða um land unnið mjög gott starf í félagsmálaráðgjöf og öðru, frábært starf við oft erfiðar aðstæður. Mér finnst þetta frábært mál. Ég mun styðja það alla leið, ég er ekki á því, en ég mun styðja það alla leið. Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Karli Garðarssyni, við eigum að ræða miklu meira málefni barna og unglinga og fjölskyldna sem eiga í félagslegum erfiðleikum. Við eigum að leggja okkur öll fram við það vegna þess að hvað sem okkur finnst um efnahagsmál og hitt og þetta þá eru börnin framtíðin okkar. Það eru þau sem koma til með að byggja þetta land í framtíðinni. Við eigum að hlúa eins vel að þeim og við mögulega getum og kenna þeim að takast á við lífið, alveg sama hvort þau eiga við einhverja erfiðleika að stríða eða ekki, kenna þeim að vera góðar manneskjur sem vita út á hvað samfélagið gengur og það gengur út á samheldni. Við eigum að vera tilbúin að hjálpa þeim sem verst hafa það, sem verst standa. Fyrir mér snúast stjórnmál eiginlega eingöngu um það. Allar þær ákvarðanir sem við tökum hér inni og ákveðum að framkvæma eiga að koma þeim sem verst standa best. Það á við um fátækt fólk og ekki síst fólk sem á við geðræn vandamál að stríða, kvíða og þunglyndi, það er víða. Við búum í þannig samfélögum í dag. Hraðinn er gríðarlegur og sumir ná ekki að halda í við hann og sjálfsmyndin brotnar smátt og smátt. Við erum í föruneyti barnsins. Gunnar Hersveinn segir það að bernskan sé ævintýri og við þurfum að hlúa rosalega vel að börnunum okkar. Við erum í föruneytinu. Það eru ekki aðeins foreldrarnir heldur allt samfélagið sem er í föruneyti barnsins, ekki síst þeir sem stjórna landinu og við þingmenn. Við eigum náttúrlega að sýna það í verki að við séum að hugsa um þau.

Ég fagna þessu máli og styð það alla leið.