144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

aðgerðaáætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra.

52. mál
[16:53]
Horfa

Flm. (Karl Garðarsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls um þetta mál hér í dag. Ég er sérstaklega ánægður með þann mikla samhljóm sem ég heyri í ræðum þingmanna.

Eiríkur Örn Arnarson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur í klínískri sálfræði, benti á fyrir nokkru að meiri háttar þunglyndiskast og óyndi eins og það er orðað væri bæði algengt, hamlandi og langvarandi og ætti oft upptök seint á táningsaldri. Rannsóknir hafi sýnt að allt að fjórðungur ungmenna muni eiga við meiri háttar þunglyndiskast eða óyndi að stríða áður en framhaldsskóla lýkur. Þau sem fá slíkt kast eru mun líklegri að fá það aftur síðar á lífsleiðinni. Vendipunktur fyrir þróun fyrsta þunglyndiskasts er á aldrinum 14 til 15 ára og við 18 ára aldur hafa 19% ungmenna þegar greinst með það sem kallað er meiri háttar þunglyndiskast.

Einkenni þunglyndis og kvíða hjá börnum og unglingum geta tekið á sig ýmsar myndir, til dæmis einbeitingarleysi með minnkuðum námsárangri. Þetta getur verið pirringur og reiði, léleg umhirða, lystarleysi og þreyta. Þau kvarta yfir að geta ekki sofið eða þau dreymi illa. Þau snúa sólarhringnum við og loka sig af frá vinum. Leiði og áhugaleysi og jafnvel dapurleg tónlist verða oft ríkjandi.

Þunglyndi greinist oft fyrst í skólanum. Kennarar taka eftir því að nemandinn er farinn að dragast aftur úr, sinnir ekki heimanámi, tekur lítinn þátt í umræðu, dregur sig í hlé eða mætir illa. Leita þarf allra ráða til að koma í veg fyrir að slíkt ástand þróist í þunglyndi svo að draga megi úr hamlandi áhrifum þess á þroska barnsins.

Talið er að neikvæður þankagangur sem er einkennandi fyrir hina þunglyndu mótist einmitt snemma á ævinni eða á aldrinum 11 til 14 ára. Ætla má að nær helmingur þunglyndra unglinga þjáist jafnframt af annars konar geðröskun, svo sem kvíðaröskun, hegðunarröskun, misnotkun áfengis og vímuefna og röskun á matarvenjum.

Mjög mikilvægt er að vera vakandi fyrir þunglyndi barna, því ómeðhöndlað þunglyndi getur haft afdrifarík áhrif á líf þeirra síðar á ævinni eins og fram kom í fyrri ræðu minni. Ómeðhöndlað þunglyndi barns getur truflað mjög alla félagslega virkni og leitt til þess að barnið flosnar upp úr skóla, leitt til félagslegrar einangrunar og vímuefnanotkunar til að deyfa sársaukann. Í verstu tilvikum getur það leitt til sjálfsvígstilraunar.

Í þessari þingsályktunartillögu er ekki lagt til að byrjað verði á að dæla lyfjum í börn og unglinga sem þjást af kvíða og þunglyndi. Lagt er til að rætt verði við þau sem um ræðir, sömuleiðis foreldra og aðra nána aðstandendur. Síðan verði boðið upp á námskeið, til dæmis í hugrænni atferlismeðferð, sem hafa sannað gildi sitt um allan heim. Það verði boðið upp á forvarnir og aðra þá hjálp sem völ er á.

Með því að fara þessa leið komum við í veg fyrir að börn og unglingar einangrist oft fyrir lífstíð. Við komum í veg fyrir að þau detti úr skóla, komum í veg fyrir að þau verði oft óvinnufær í lengri eða skemmri tíma. Við komum líka í veg fyrir félagslega einangrun þeirra og gerum þau að góðum og nýtum þjóðfélagsþegnum. Við aukum lífsgæði þeirra til muna.

Spyrja má: Kostar ekki mikið að skima fyrir þunglyndi og kvíða hjá öllum börnum og unglingum í grunn- og framhaldsskólum? Svarið er: Jú, það kostar vissulega nokkra peninga, það eru þó smáaurar miðað við þá fjármuni sem sparast við slíka leit.

Þetta mál tengist síðan öðru og stærra máli sem eru foreldrarnir. Hér á landi er starfrækt Miðstöð foreldra og barna, en hún sérhæfir sig í því að efla tengsl verðandi foreldra og foreldra með börn að eins árs aldri. Markhópurinn er ekki síst foreldrarnir sem þurfa sérhæfðari meðferð en heilsugæslan veitir en eiga þó ekki erindi á geðdeild. Markmið þeirrar meðferðar sem Miðstöð foreldra og barna veitir er líka að draga úr áhrifum streitu á ung börn og efla foreldra í að veita börnum sínum viðeigandi atlæti. Hvort tveggja hefur áhrif á heilbrigði barna fram á fullorðinsár, andlegt jafnt sem líkamlegt.

Viðverandi streita ungra barna skaðar heilann og dregur úr vexti hans, veikir ónæmiskerfi og minnkar mótstöðuafl líkamans gegn langvinnum heilsufarsvandamálum. Börn eru í sérstakri áhættu ef foreldrar glíma við geðheilsuvanda eða fíkn, voru sjálfir vanræktir eða misnotaðir sem börn, eru óþroskaðir eða njóta lítils stuðnings fjölskyldu, ef erfiðleikar eru í sambandi foreldra, þeim þykir ekki vænt um barnið sitt eða börnin búa við fátækt eða heimilisofbeldi.

Rannsóknir sýna að með því að grípa snemma inn í tengslavanda barna og foreldra dregur úr hegðunarerfiðleikum barna og unglinga, áfengis- og fíkniefnaneyslu þeirra og geðröskunum á unglingsaldri. Bætt heilsa og aukin félagsleg færni dregur úr þörf fyrir kostnaðarsöm úrræði síðar meir í félags-, mennta- og heilbrigðiskerfinu.

Það er mikil þörf fyrir þau úrræði sem Miðstöð foreldra og barna veitir, en árið 2013 var 118 fjölskyldum veitt þjónusta í 600 viðtölum sem var 46% aukning frá árinu á undan.

Líta verður á geðheilbrigðismálin sem eina heild. Þetta er málaflokkur sem við verðum að sinna vel og sú þingsályktunartillaga sem hér er komin fram er lítið skref í þá átt að búa fleiri einstaklingum betra líf. Hægt er að ráðast í aðgerðir sem kosta ekki of mikið, aðgerðir sem skila miklum árangri til framtíðar og skila einstaklingum sem eru betur búnir undir að takast á við daglegt líf.

Flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra vilja að brugðist sé við þeirri staðreynd að of mörg börn kljást við alvarlega vanlíðan sem hefur ómæld áhrif á lífshlaup þeirra. Geðrænn vandi fullorðinna hefst oft í barnæsku og þeim vanda hefði mögulega mátt afstýra með góðri og markvissri geðheilbrigðisþjónustu á þeim tíma. Flutningsmenn vilja líka bregðast við hugsanlegum áhrifum hrunsins á líðan barna og fyrirbyggja slík áhrif sambærileg þeim sem urðu meðal annars í kjölfar kreppunnar í Finnlandi eins og ég minntist á í fyrri ræðu minni. Ómeðhöndlaður kvíði, þunglyndi og annar tilfinningavandi er líklegur til að valda hverjum þeim sem þjáist, fjölskyldu viðkomandi og samfélaginu öllu sársauka og byrði.

Ég ítreka það að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til velferðarnefndar.