144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

tollalög.

251. mál
[17:05]
Horfa

Flm. (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á tollalögum nr. 88/2005, með síðari breytingum.

Breytingin sem hér um ræðir varðar sýnishorn verslunarvara og frumgerðir.

Frumvarpið snýr að því að gera sýnishorn hönnuða sem eru í framleiðsluferli á Íslandi lausa við erfiðleika í tollumhverfi því að það hefur háð greinum a borð við fata- og vöruhönnun á Íslandi.

Það er mikið gleðiefni að vegur hönnunar á Íslandi fer ört vaxandi. Listaháskóli Íslands útskrifar á hverju ári fjölda fata- og vöruhönnuða sem margir hverjir sýna það frumkvæði og þann drifkraft að hanna ýmiss konar vörur til sölu sem seljast vel bæði til innlendra og erlendra kaupenda hér á landi.

Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 er vísað til stefnu sem miðar að því að skapa umhverfi sem hvetur til nýsköpunar. Þá kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins að einfalda þurfi stuðningsumhverfi sprotafyrirtækja.

Þessi stefna og hvatning má sín þó lítils ef starfsumhverfið er með einhverjum hætti hamlandi. Hönnuðir hafa á undanförnum árum átt í miklum erfiðleikum með vöruþróun og framleiðsluferli á þeim vörum sem þeir láta framleiða fyrir sig utan landsteinana. Þetta á einkum við í vöruþróunarferlinu sjálfu. Þá eiga sér stað mikil samskipti við erlenda framleiðendur sem senda sýnishorn vörunnar til hönnuðarins sem staddur er hér á landi, til samþykkis eða frekari vinnu. Þannig eru sýnishorn frá framleiðanda aðeins vinnugögn í framleiðsluferli en ekki endanlega varan sjálf.

Í a-lið 11. töluliðar 1. mgr. 6. gr. tollalaga, nr. 88/2005, er meðal annars kveðið á um að sendingar sem innihalda sýnishorn verslunarvara séu tollfrjálsar ef a) verðmæti þeirra er óverulegt eða b) þær innihalda sýnishorn sem hafa verið gerð ónothæf sem almenn verslunarvara. Þetta ákvæði er nánar útfært í 1. tölulið 41. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi, en þar eru sýnishorn sem hafa meira verðmæti en 5.000 kr. ekki talin hafa óverulegt verðmæti.

Óhætt er að segja að fylgni við framangreint hafi valdið íslenskum hönnuðum umtalsverðri vinnu og kostnaði. Dæmi um slíkt má sjá í úrskurði ríkistollanefndar nr. 7/2011. Þar var deilt um hvort verðgildi sýnishorna væri undir viðmiðunarmörkum 1. töluliðar 41. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Nánar tiltekið var í málinu deilt um hvort viðmiðunarmörkin ættu við um hvert sýnishorn fyrir sig eða heildarsafn sýnishorna í einni sendingu. Niðurstaða ríkistollanefndar var sú að viðmiðunarmörkin ættu við um öll sýnishorn í tiltekinni sendingu. Fyrir hönnuðinn þýddi það að hann eða hún þarf nú að leggja mat á hvort það borgi sig að skipta sýnishornunum sem hann pantar niður í fleiri en eina sendingu. Slíkt mun vitaskuld kalla á óeðlilega mikið vinnuframlag og kostnað og hafa sóun í för með sér. Þetta er hreint út sagt óttalegt vesen og leiðindi að þurfa að standa í þessu.

Með frumvarpinu er stefnt að einföldun. Sú meginbreyting er lögð til að ekki verði lengur miðað við verðgildi vöru þegar ákvarðað er hvort hún eigi að teljast tollfrjálst sýnishorn. Sú breyting mun að sjálfsögðu ekki leysa hönnuði undan því að þeir tryggi rétta skráningu í tollskjölum.

Ég ætla aðeins að fara inn á það hvað átt er við nákvæmlega þegar við ræðum um frumgerðir eða sýnishorn. Með frumgerð vöru, eða, með leyfi forseta, „prototype“, er átt við vöru á vöruþróunarstigi sem er hvorki fullunnin vara til endursölu né notuð sem sýnishorn. Hún hefur ekkert viðskiptalegt gildi. Líkja má frumgerðum við vinnuteikningar. Framleiðsla frumgerða er einungis hluti af ferlinu við að útbúa fullunna vöru til almennrar sölu.

Frumgerð getur verið hluti vöru, til dæmis litaprufa eða tillaga að sniði eða formi sem enn er í vinnslu. Frumgerð vöru er send milli hönnuðar og framleiðslufyrirtækis í ferli sem hefur það að markmiði að nálgast endanlega vöru sem hönnuður sér fyrir sér að verði framleidd. Öflun frumgerða kann að leiða til þess að kostnaður myndist en hún skapar engar beinar tekjur, þ.e. að fá frumgerðina til landsins, koma henni í gegnum tollinn og allt það vesen; kostnaðurinn myndast en skapar engar beinar tekjur. Í langflestum tilfellum greiðir hönnuður þó ekki fyrir frumgerð vöru á þróunarstigi heldur er yfirleitt samið um innkaupsverð á fullbúinni framleiðsluvöru eftir að vinnslustigi frumgerða er lokið.

Með sýnishorni er átt við hönnunarvöru á lokastigum vöruþróunar. Hún hefur ekkert viðskiptalegt gildi heldur. Hún lítur að mestu leyti út eins og fullunnin söluvara en er eigi að síður ekki gerð til endursölu. Til dæmis getur verið um að ræða stærðarsýnishorn, frumframleiðslusýnishorn, sölumannasýnishorn eða framleiðslusýnishorn. Sýnishorn eru eingöngu notuð til prófunar, sölukynningar og markaðssetningar. Oft eru pöntuð fleiri en eitt eintak af sýnishorni vöru og send mismunandi söluaðilum í þeim tilgangi að þeir eða smásöluaðilar geti skoðað þau.

Eins og fram hefur komið eru skilyrði þess að vara teljist sýnishorn skýrð nánar í reglugerð nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi. Verði frumvarpið að lögum mun verða nauðsynlegt að gera breytingar á ákvæðum reglugerðarinnar og setja þar fram nýjar skilgreiningar til samræmis við ákvæði frumvarpsins.