144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

fullgilding bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum (OPCAT).

186. mál
[17:12]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um fullgildingu valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Um svokallaðan OPCAT-viðauka er að ræða.

Ályktunin sem lögð er til er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu sem samþykkt var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York 18. desember 2002 og undirrituð fyrir Íslands hönd 23. september 2003 af þáverandi utanríkisráðherra Íslands.

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja án tafar undirbúning að setningu laga um eftirlitið sem bókunin kveður á um og þarf að vera komið á fót innan árs frá fullgildingu bókunarinnar, sbr. 17. gr. hennar.“

Virðulegi forseti. Samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við pyndingum var fullgiltur af Íslands hálfu árið 1996. Með samningnum skuldbinda aðildarríki hans sig til að grípa annars vegar til ráðstafana til að framfylgja fortakslausu banni við pyndingum og hins vegar til ráðstafana til að koma í veg fyrir að pyndingar eigi sér stað. Með þessari þingsályktunartillögu er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að fullgilda valfrjálsa bókun við þennan samning. Bókunin var undirrituð af Íslands hálfu í september 2003 af þáverandi utanríkisráðherra Íslands með fyrirvara um fullgildingu.

Í bókuninni er kveðið á um eftirlit sjálfstæðra aðila sem falið er að heimsækja reglulega stofnanir sem vista frelsissvipta einstaklinga í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að pyndingar eða önnur grimmileg eða vanvirðandi meðferð viðgangist. Í bókuninni er kveðið á um tvíþætt eftirlit. Efni bókunarinnar lýtur fyrst og fremst að stofnun og starfsemi innlendra og erlendra eftirlitsaðila og skuldbindingum aðildarríkja þar að lútandi. Samkvæmt bókuninni er hinni alþjóðlegu nefnd falið að heimsækja með reglubundnum hætti þær stofnanir í aðildarríkjum sem vista frelsissvipta einstaklinga og gefa ríkjum tilmæli og ábendingar varðandi vernd gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þá er nefndinni einnig falið að vera ríkjum til ráðgjafar um innlend eftirlitskerfi, stofnun þeirra og starfsemi, sem og að eiga samskipti við sjálfa eftirlitsaðila innan lands við ráðgjöf, þjálfun o.fl.

Hins vegar er einnig fjallað um innlent eftirlitskerfi sem aðildarríkjunum er ætlað að koma á fót innan árs frá fullgildingu bókunarinnar. Það sem innlenda eftirlitskerfið þarf að geta beitt eru reglulegar kannanir á meðferð og aðbúnaði frelsissviptra einstaklinga og tilmæli og ábendingar til stjórnvalda um það sem betur má fara, bæði hvað varðar framkvæmd og lagasetningu.

Í bókuninni er sérstaklega kveðið á um ýmsar skuldbindingar aðildarríkjanna, meðal annars til að veita eftirlitsaðilum, bæði innlendum og alþjóðlegum, aðgang að frelsissviptum einstaklingum og stofnunum, ótakmarkaðan aðgang að upplýsingum um fjölda frelsissviptra einstaklinga á hverri stofnun, fjölda slíkra stofnana og staðsetningu þeirra, allar upplýsingar um meðferð þeirra og aðbúnað, ótakmarkaðan aðgang að stofnunum sjálfum og möguleika á einkaviðtölum við frelsissvipta einstaklinga. Þá er fjallað um vernd þeirra sem eftirlitsaðilar ræða við og afla upplýsinga hjá og er óheimilt að beita þá hvers kyns refsingu eða láta þá gjalda fyrir samskipti við eftirlitsaðilana. Aðildarríkin hafa líka skyldu samkvæmt bókuninni til að taka við tilmælum og ábendingum, bæði hinna innlendu og erlendu eftirlitsaðila, um það sem betur má fara, bæði hvað varðar framkvæmd og lagasetningu, og eiga samskipti og samráð um innleiðingu breytinga eftir atvikum.

Það sem þarf að gera í kjölfar fullgildingarinnar er annars vegar að tryggja með lögum að hin alþjóðlega undirnefnd um varnir gegn pyndingum geti sinnt því eftirliti hér á landi og njóti þeirra réttinda hér á landi sem bókunin kveður á um. Hins vegar þarf að ákvarða hverjum skuli falið að sinna innlenda eftirlitinu sem bókunin kveður á um og setja um það viðeigandi ákvæði í lög. Eins og fram kemur í 17. gr. bókunarinnar hafa aðildarríki allt að einu ári frá fullgildingu til að koma umræddu eftirliti á. Með tilliti til þess hve langur tími er liðinn frá undirritun bókunarinnar telja flutningsmenn ekki unnt að bíða lengur með fullgildinguna. Með henni skapast þá skýr tímarammi fyrir þá vinnu sem hefja þarf við að koma eftirlitinu á fót.

Í nágrannaríkjum okkar, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi, hefur umboðsmönnum þjóðþinganna verið falið með lögum að sinna hinu innlenda OPCAT-eftirliti. Umboðsmaður Alþingis hefur í reynd sinnt þessu eftirliti að nokkru leyti hér á landi, þá alfarið að eigin frumkvæði. Evrópunefndin gegn pyndingum lét þess hins vegar getið í fyrrnefndri skýrslu sinni að fram hefði komið á fundi nefndarinnar með Tryggva Gunnarssyni, umboðsmanni Alþingis, að stofnunin gæti ekki lengur sinnt þessu reglulega eftirliti á þessum vettvangi vegna fjárskorts og takmarkaðs mannafla. Þótt flutningsmenn tillögunnar taki ekki beina afstöðu til þess hverjum yrði falið að sjá um eftirlitið þykir þeim liggja beinast við að umboðsmanni Alþingis verði falið þetta hlutverk, með sama hætti og gert hefur verið í nágrannaríkjum. Forsenda þess er að þeim auknu skyldum sem það fæli í sér fylgi aukið fjármagn.

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni var OPCAT-bókunin undirrituð fyrir Íslands hönd 23. september 2003, fyrir 11 árum. Í þeirri undirritun felst viljayfirlýsing okkar Íslendinga og því er ekki um pólitískt deiluefni að ræða. Við erum eða hljótum að vera sammála um þetta mál. Við þurfum bara að koma því í verk að fullgilda bókunina og koma eftirlitinu í gang. Flest þeirra ríkja sem við berum okkur saman við hafa fullgilt bókunina, þar á meðal öll Norðurlöndin að Finnlandi undanskildu.

Í athugasemdum nefndar Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum frá 8. júlí 2008 lýsir nefndin áhyggjum af því að engu lögformlegu eftirliti hafi verið komið á fót til að fylgjast með stofnunum sem vista frelsissvipta einstaklinga og hvetur nefndin til þess að valfrjálsa bókunin verði fullgilt eins fljótt og auðið er. Í skýrslu nefndar ráðherraráðs Evrópu um pyndingar til íslenskra stjórnvalda, sem kom út í mars 2013, er mælst til þess að Ísland fullgildi bókunina og komi á sjálfstæðu eftirlitskerfi. Er þetta áréttað í skýrslunni sem sérstakt forgangsatriði. Síðast en ekki síst hefur Afstaða, félag fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun fanga, ítrekað hvatt til þess að viðaukinn verði fullgiltur til að tryggja megi gott og sjálfstætt eftirlit með stofnunum sem vista frelsissvipta einstaklinga.

Ég legg til að tillagan gangi til síðari umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.