144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

starfsemi Aflsins og fleiri samtaka.

[10:40]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. ráðherra velferðarmála sem varðar Aflið á Akureyri. Það eru samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi sem hafa verið starfandi frá árinu 2002. Samtökin bjóða upp á símavakt allan sólarhringinn og þjónusta í rauninni miklu stærra svæði en einungis Akureyri og eru í góðu samstarfi við félagsþjónustuna, lögregluna og aðra sem að málum koma.

Þessi samtök hafa verið að fá um 2,5 milljónir frá ríkinu en sambærileg samtök á höfuðborgarsvæðinu, sem eru nú síst ofalin af því fé sem þau fá, fá 140 milljónir. Mér reiknast til að ef við miðum við höfðatölu ætti Aflið að fá um 18 milljónir. Það segir sig sjálft að fyrir 2,5 milljónir er þetta mikið til vinna í sjálfboðavinnu. Nú er staðan orðin þannig að það er ekki alveg ljóst hvort samtökin geta starfað áfram í núverandi mynd.

Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir spurði hæstv. ráðherra út í þessi mál fyrir skömmu en ég varð ekki endilega miklu nær. Mig langar því til að ítreka spurninguna um hvort þeim samtökum verði tryggt eðlilegt fjármagn á næsta ári og einnig Sólstöfum á Vestfjörðum, sem hafa einnig verið að reyna að sinna svipaðri þjónustu.

Mér finnst það megi ekki vera þannig að nálægðin við stjórnsýsluna skeri úr um það hversu vel samtökum gangi að tryggja sér fjármagn, en það er pínulítið tilfinningin sem maður hefur. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún muni tryggja það að þessi samtök geti starfað áfram og veitt þá mjög mikilvægu þjónustu sem þau gera á Norðurlandi.