144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

fjárframlög til rannsókna kynferðisbrota.

[10:46]
Horfa

Eyrún Eyþórsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 hafa tímabundnar fjárveitingar vegna rannsókna á kynferðisbrotamálum verið teknar af lögregluembættum og ríkissaksóknara en engu að síður er embættunum ætlað að vinna að þessum mikilvæga málaflokki og væntanlega ekki af minni alúð en áður.

Rannsókn kynferðisbrota er stór hluti mála hjá ríkissaksóknara og rannsókn kynferðisbrota er umfangsmikið verkefni hjá lögregluembættunum. Vissulega voru umræddar fjárveitingar tímabundnar, en staðan er sú að kynferðisbrotamálum fer sífellt fjölgandi og einnig slíkum brotum gegn ungum börnum. Ég þekki það sjálf úr starfi mínu sem lögreglumaður hversu stór þessi málaflokkur er. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lýst vilja til að setja aukinn kraft í þetta málefni.

Af þeim sökum vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann muni stuðla að því að meira fé verði varið til rannsókna á kynferðisbrotamálum en nú er og hvar hann telji að mest þörf sé fyrir aukið fé til rannsókna á slíkum málum.