144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

hjúkrunarheimilið Eyri á Ísafirði.

[10:59]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá góðu fyrirspurn sem hér var borin upp. Málefni hjúkrunarheimilisins Eyrar eru mér hugleikin eins og flestum hér í þessum sal. Þetta verkefni er mikið að vöxtum eins og kemur ágætlega fram í svörum ráðuneytisins við fyrirspurn frá hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur.

Þar erum við stödd í þessu máli að árið 2009 var samþykkt framkvæmdaáætlun um byggingu 11 hjúkrunarheimila, endurbygging í sumum tilfellum, um land allt, þar á meðal á Ísafirði.

Eftir þeirri áætlun er ég að vinna. Í áætluninni er gert ráð fyrir endurnýjun íbúða á sumum stöðum og að breyta úr fjölbýli í einbýli. Sums staðar var bætt við rýmum, annars staðar var verið að vinna úr rýmum sem fyrir voru á viðkomandi svæðum, þar á meðal á Eyri á Ísafirði.

Ég er með öðrum orðum að vinna á grunni þeirrar áætlunar sem við tökum við og er í fullri vinnslu en eftir er að hefja framkvæmdir við tvö heimili af þessum 11, þ.e. í Hafnarfirði og Kópavogi. Hin öll eru að koma í notkun eins og þingmaðurinn réttilega lýsti.

Mér ber að vinna að framgangi þessarar framkvæmdar á Ísafirði sérstaklega á grunni þeirrar áætlunar sem gerð var. Í henni segir að rými sem fyrir voru séu fjármögnuð með sama hætti, nýju rýmin sem bætast við séu fjármögnuð með tekjum Framkvæmdasjóðs aldraðra. Ég get komið aðeins nánar að því í síðara svari mínu.